Michael Schumacher sýndi það og sannaði í dag í belgíska Formúlu 1 kappakstrinum að það er enn mikið í hann spunnið sem ökumann í Formúlu 1. Schumacher vann sig upp úr 24 og neðsta sæti á ráslínu í það fimmta. Hann tapaði afturhjóli undan bílnum í gær í tímatökum og ræsti því síðastur af stað í keppnina í dag.
Tuttugu ár eru síðan Schumacher hóf að keppa í Formúlu 1 og það var einmitt á Spa brautinni árið 1991 og það sem gerðist í tímatökunni í gær var því áfall fyrir kappann og ekki síður Mercedes liðið. Eitthvað brást í afturhjólabúnaði bílsins þegar Schumacher var tiltölulega nýkominn inn á brautina í tímatökuna.
„Þetta var dásamlegur endur á dásamlegri helgi á Spa. Ég hefði ekki getað komist ofar en í fimmta sæti, en það var góð tilfinning að vinna sig upp um 19 sæti", sagði Schumacher. Vinir hans og fjölskylda var á staðnum, auk fjölda áhangenda hans gegnum tíðina.
„Það gaf mér aukinn styrk og ég vil þakka öllum stuðninginn. Fólk upplifði spennandi keppni og keppnisáætlun okkar var vel útfærð. Í heildina litið var þetta tilfinningaríkt og mikið um framúrakstur í dag. Ég hafði áhyggjur af því í upphafi að eitthvað af fljúgandi hlutum (eftir samstuð bíla eftir ræsinguna) gæti lent á bíl mínum og skemmt hann, en ég var heppinn og ekkert slíkt gerðist. Eftir það var bara gaman að elta keppinauta uppi og taka framúr", sagði Schumacher.
Stjörnuakstur Schumacher í tímamótakeppni
