Viðskipti innlent

Einhugur um vaxtalækkun innan Peningastefnunefndar

Töluverður einhugur var innan Peningastefnunefndar Seðlabankans um síðustu vaxtaákvörðun þar sem ákveðið var að lækka stýrivexti um 0,25 prósentur. Eins og áður hefur komið fram hafði nefndin helst áhyggur af veikingu á gengi krónunnar frá áramótum.

Í fundargerð nefndarinnar segir: "Nefndarmenn lögðu áherslu á að þar sem útlit væri fyrir að verðbólga yrði áfram við verðbólgumarkmiðið og í ljósi þess að vextir væru í sögulegu lágmarki ríkti aukin óvissa um í hvaða átt næstu vaxtabreytingar yrðu. Eins og áður skapa áætlanir um afnám hafta á fjármagnshreyfingar einnig óvissu um svigrúm til aðgerða til skemmri tíma.

 

Nefndarmenn ræddu þann möguleika að lækka vexti um 0 til 0,5 prósentur. Með hliðsjón af umræðunni og mismunandi sjónarmiðum sem fram komu lagði seðlabankastjóri til að vextir bankans yrðu lækkaðir um 0,25 prósentur sem myndi lækka innlánsvexti (vexti á viðskiptareikningum) í 3,25%, hámarksvexti á 28 daga innstæðubréfum í 4,0%, vexti af lánum gegn veði til sjö daga í 4,25% og daglánavexti í 5,25%.

 

Nefndarmenn greiddu allir atkvæði með tillögu seðlabankastjóra, en einn nefndarmaður hefði þó kosið 0,25 prósentna meiri lækkun með þeim rökum að þótt upphaf efnahagsbatans væri í sjónmáli væri hann enn þá afar veikur og að æskilegt væri að örva hann enn frekar.

 

Peningastefnunefndin er sem fyrr reiðubúin til þess að breyta aðhaldi peningastefnunnar eins og nauðsynlegt er með hliðsjón af því tímabundna markmiði hennar að stuðla að gengisstöðugleika og í því skyni að tryggja að verðbólga verði nálægt markmiði til lengri tíma litið.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×