Viðskipti innlent

Dómur Hæstaréttar festir gengislánalögin í sessi

Efnahags- og viðskiptaráðuneytið lítur svo á að dómur Hæstaréttar sem féll í gær festi í sessi efnisreglur og forsendur gengislánalaga sem Alþingi setti í desember. Þetta kemur fram í tilkynningu sem ráðuneytið sendi frá sér í tilefni af dómnum.

Samtök lánþega sendu frá sér tilkynningu vegna dómsins þar sem segir að dómurinn, sem snerist um mál Tölvupóstsins ehf. gegn Frjálsa fjárfestningabankanum, væri stór sigur fyrir lánþega.

Fréttastofa reyndi ítrekað að fá svör frá ráðuneytinu vegna dómsins í dag en það hefur nú sent frá sér tilkynningu. Þar eru tíundið eftirfarandi atriði:

  1. Húsnæðislánaform Frjálsa fjárfestingarbankans sem m.a. kváðu á um að skuldarar viðurkenndu að skulda íslenskar krónur „að jafnvirði" tiltekinna erlendra mynta, fela í sér ólögmæta gengistryggingu. Ekki skipti heldur máli þótt lánin væru kölluð „Fasteignalán í erlendri mynt". Þetta er í samræmi við ákvæði laganna frá í desember.

  2. Hæstiréttur segir að mestu máli skipti þegar metið er hvort um gilt erlent lán er að ræða eða íslenskt lán með ólögmætri gengistryggingu hvort lánsfjárhæðin sé ákveðin í íslenskum krónum og greiða beri lánið til baka í sömu mynt. Þetta er í samræmi við desemberlögin.

  3. Ekki var fallist á það með bankanum að undantekningarákvæði 2. gr. vaxtalaga, sem eiga við ef samið er um betri réttindi fyrir skuldara, leiði til þess að annars ógild gengistryggingarákvæði skuli gilda.

  4. Á skuldina ber að reikna svokallaða seðlabankavexti en ekki svokallaða LIBOR vexti (millibankavexti) með álagi. Er skýrt tekið fram að fyrri dómar Hæstaréttar í gengislánamálum hafi fullt fordæmisgildi.

  5. Ekki var fallist á að tilvísun skuldara til laga um neytendalán breytti fyrri fordæmum um ákvörðun vaxta (en þeirri málsástæðu hafði ekki verið haldið fram í eldri málum).

  6. Varðandi uppgjör á þeim lánum sem um ræddi í málinu er tekið fram í dómi Hæstaréttar að verulega vanti upp á þau hafi verið í skilum miðað við uppreikning samkvæmt seðlabankavöxtum.

  7. Í dómnum er þetta orðað: „Samkvæmt ... forsendum fyrir útreikningum hafa sóknaraðilar (skuldarar) ekki ofgreitt af lánum sínum, heldur skortir þvert á móti upp á að full skil teljist hafa verið gerð". Að öðru leyti var ekki fjallað um uppgjör til fortíðar litið þar sem Frjálsi fjárfestingarbankinn gerði ekki sérstaka kröfu þar um fyrir Hæstarétti.







Tengdar fréttir

Úrskurður Hæstaréttar kostar Frjálsa marga milljarða

Nýr úrskurður Hæstaréttar í máli Tölvupóstsins ehf. gegn Frjálsa fjárfestingarbankanum (FF) kallar á margra milljarða kr. endurmat og lækkun á lánum til fyrirtækja í viðbót við það sem FF þarf að lækka lán einstaklinga vegna endurútreikninga lána þeirra.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×