Viðskipti innlent

Gamla stjórn Sjóvár íhugar skaðabótakröfur

Guðný Helga Herbertsdóttir skrifar

Stjórn gömlu Sjóvár íhugar að krefja fyrrverandi stjórn og stjórnendur félagsins um skaðabætur vegna þess tjóns sem hlaust af störfum þeirra.

Fréttastofa greindi frá því í gær að sérstakur saksóknari rannsakar hvort að Þór Sigfússon hafi gerst sekur um umboðssvik með því að lesa ekki yfir samninga sem hann skrifaði undir sem forstjóri Sjóvá.

Þetta mun vera einn angi rannsóknar embættisins á málefnum Sjóvár og Milestone. Umboðssvik falla undir auðgunarbrot hegningarlaga og geta varðað allt að sex ára fangelsi. Þau felast í því að einstaklingur í krafti umboðs eða stöðu gerir eitthvað eða lætur það ógert til að auðga sjálfan sig eða aðra á kostnað þess sem veitir umboðið.

Svo gæti farið að stjórnendur og stjórn gamla Sjóvár muni þurfa að sæta bæði refsi- og skaðabótaábyrgð vegna þeirra ákvarðana sem þeir báru ábyrgð á og leiddu til tjóns fyrir tryggingarfélagið. Í hlutafélagalögum segir að stjórnarmenn og framkvæmdastjórar séu skyldir til að bæta hlutafélagi það tjón er þeir hafa valdið félaginu í störfum sínum, hvort sem er af ásetningi eða gáleysi.

Heimir Haraldsson er formaður stjórnar Sjóvár og Sj. eignarhaldsfélags sem heldur utan um fjárfestingastarfsemi gamla félagsins. Hann sagði í samtali við fréttastofu að stjórn SJ. eignarhaldsfélags sé að skoða hvort að farið verði fram á skaðabætur frá fyrrverandi stjórnendum og stjórn. Niðurstaða sé þó ekki komin í það mál en væntanlega verði horft til þess hversu líklegt er að slíkt muni skila félaginu einhverju.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×