Viðskipti innlent

AGS ræðir áfram við Norðurlönd um fjármögnun fyrir Ísland

Alþjóðagjaldeyrissjóður (AGS) heldur áfram viðræðum við ráðamenn á Norðurlöndunum um fjármögnun á áætlun sinni og íslenskra stjórnvalda. Hinsvegar hefur næstu endurskoðun á áætluninni verið frestað um óákveðinn tíma.

Endurskoðunin átti að vera á dagskrá í þessum mánuði en nú er ljóst samkvæmt dagskrá stjórnar AGS, sem birt er á heimasíðu sjóðsins, að svo verður ekki.

Caroline Atkinson forstjóri samskiptasviðs AGS segir að viðræður sjóðsins við Norðurlönd haldi áfram og að sjóðurinn vilji að lánin frá Norðurlöndunum liggi fyrir áður en næsta endurskoðun verður sett á dagskrá sjóðsins. Þetta kom fram á blaðamannafundi sem Atkinson hélt fyrir helgina.

Eins og fram hefur komið í fréttum hefur boðuð þjóðaratkvæðagreiðsla um Icesave sett endurskoðun AGS í uppnám þar sem Norðurlöndin ætla að bíða eftir niðurstöðu þeirrar atkvæðagreiðslu og taka þá ákvarðanir um áframhaldandi stuðning sinn við Íslands í framhaldi hennar. Hinsvegar hefur AGS margoft sagt að lausn Icesave málsins sé ekki skilyrði af hálfu sjóðsins.

Aðspurð um hvort hægt væri að leysa þennan hnút sem kominn er upp segir Atkinson að í sjálfu sér sé allt hægt. „Hið sama er upp á teningnum með Ísland eins og öll önnur lönd," segir Atkinson. „Áður en við lánum fé verður að vera tryggt af okkar hálfu að áætlunin sé að fullu fjármögnuð. Við eigum áfram í viðræðum um að tryggja að svo sé."

Aðspurð um hvort von væri á sendinefnd frá AGS til Íslands vegna þessarar stöðu segir Atkinson að hún viti ekki til að slík sendinefnd sé áformuð.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×