Viðskipti innlent

Sér fyrir endann á samdrættinum

Það sér fyrir endann á samdrættinum hér á landi segir aðalhagfræðingur Seðlabankans, það sé þó lengra í að kreppunni ljúki. Samdráttarskeiðið sé það dýpsta og með því lengsta sem vestrænt ríki hafi upplifað.

Seðlabankinn lækkaði stýrivexti í morgun um 0,5 prósentustig og eru þeir nú 8,5 prósent. Vextirnir fóru hæst upp í 18% í október 2008 eftir hrunið. Þrátt að þeir hafi nú lækkað um tæp 10% eru þeir með því hæsta sem þekkist í vestrænum heimi.

„Það má alltaf deila um hvað á að lækka vextina um mikið í hverju skrefi en þetta var það sem var ákveðið nú. Að óbreyttu sýnist mér það séu mjög góðar horfur að við getum stigið nokkuð myndarleg skref kannski í júní," segir Már Guðmundsson, seðlabankastjóri, aðspurður hvort ekki séu forsendur fyrir frekari lækkun þar sem gengi krónunnar hefur verið nokkuð stöðug að undanförnu og dregið hefur úr verðbólgu.

Þá voru Peningamál Seðlabankans birt í dag. Þar er gert ráð fyrir að efnahagsbata landsins seinki til þriðja ársfjórðungs þessa árs. Samkvæmt því mun efnahagssamdrátturinn hér á landi vara í tíu ársfjórðunga eða tvö og hálft ár.

„Þrátt fyrir að við séum bjartsýnni um efnahagshorfur en við vorum í janúar þá breytir það því ekki að þetta er dýpsta og lengsta samdráttarskeiði meðal annarra sambærilegra þróaðra ríkja," segir Þórarinn G. Pétursson, aðalhagfræðingur Seðlabankans.

„Á þriðja ársfjórðungi teljum við að landsframleiðsla taki að vaxa á ný milli ársfjórðunga. Þá lýkur þessu samdráttarskeiði en það þýðir ekki að við séum að segja að kreppunni sé lokið. Það er miklu lengra í það en samdráttarskeiðinu er að ljúka," segir Þórarinn.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×