Viðskipti innlent

Greining: Spáir því að verðbólgan minnki í 7,3%

Greining Íslandsbanka spáir því að vísitala neysluverðs (VNV) muni hækka um 0,2% í maímánuði. Gangi spáin eftir mun verðbólga minnka úr 8,3% í 7,3%.

„Það er helst húsnæðisliðurinn sem þokar vísitölunni upp á við í maí að mati okkar, en vísbendingar eru um einhverja hækkun markaðsverðs á íbúðum á tímabilinu. Að honum slepptum virðist sem hækkun verðlags á neysluvörum og þjónustu hafi verið afar hóflegar síðustu vikur," segir í Morgunkorni greiningar Íslandsbanka þar sem spáin er birt.

„Má það ekki síst þakka styrkingu krónu, en áhrifin af liðlega 3% styrkingu hennar frá áramótum til aprílloka eru þegar farin að koma fram í þeim liðum sem næmastir eru fyrir gengishreyfingum. Þannig er verðlag innfluttra matvæla tekið að lækka lítillega og eldsneyti hefur hækkað minna fyrir vikið en ella.

Næstu þrjá mánuðina (maí -júlí) spáum við samtals 0,3% hækkun VNV, sem samsvarar ríflega 1,2% verðbólgu á ársgrundvelli. Ef það gengur eftir hefur þriggja mánaða takturinn ekki verið hægari síðan í ársbyrjun 2007. Í kjölfarið spáum við því að verðbólga verði 3,4% í árslok, og að hún muni fara niður í 2,5% verðbólgumarkmið Seðlabankans að áliðnu sumri árið 2011.

Á meðan ekki verður mikil breyting á gjaldeyrishöftum má ætla að krónan veikist ekki umtalsvert og gerum við í spánni ráð fyrir að hún styrkist áfram hægt og bítandi næstu misserin. Erlendis er lítill þrýstingur til hækkunar verðlags á neysluvörum og hrávörum þessa dagana og því gerum við ráð fyrir að innfluttar vörur hækki almennt lítið í verði á næstunni."










Fleiri fréttir

Sjá meira


×