Viðskipti innlent

Greining spáir 0,5 prósentustiga stýrivaxtalækkun

Greining Íslandsbanka reiknar með því að peningastefnunefnd Seðlabankans ákveði að lækka stýrivexti bankans um 0,50 prósentustig á næsta vaxtaákvörðunardegi, þann 18. ágúst næstkomandi.

Fjallað er um málið í Morgunkorni greiningarinnar. Þar segir að við þetta lækka vextir á viðskiptareikningum innlánsstofnana í 6,0% og vextir á lánum gegn veði til sjö daga í 7,5%. Heldur Seðlabankinn þar með áfram vaxtalækkunarferli sínu en við síðustu vaxtaákvörðun peningastefnunefndarinnar 23. júní síðastliðinn ákvað nefndin að lækka vexti um 0,5 prósentur.

Má geta þess að þá vildu tveir af fimm nefndarmönnum taka aðra ákvörðun og lagði annar til 0,25 prósentna vaxtalækkun og hinn 0,75 prósentna lækkun. Sá sem vildi meiri lækkun hélt því fram að best væri að bregðast við áhrif gjaldeyriskreppunnar með gjaldeyrishöftum og nota lægri vexti til að bregðast við fjármagnskreppunni.

Líkt og í mörgum fyrri yfirlýsingum lýsti peningastefnunefndin því yfir eftir ákvörðun sína síðast að héldist gengi krónunnar stöðugt eða styrktist, og verðbólga hjaðnaði eins og spáð er, ættu forsendur fyrir því að draga smám saman úr peningalegu aðhaldi að vera áfram til staðar.

Gengi krónunnar er nú nánast hið sama og það var við vaxtaákvörðun nefndarinnar 23. júní síðastliðinn. Verðbólgan hefur hins vegar haldið áfram að hjaðna og ögn hraðar en reiknað var með. Við síðustu vaxtaákvörðun stóð verðbólgan í 7,5% en er nú 4,8%. Þegar ekki er tekið tillit til áhrifa óbeinna skatta minnkaði verðbólgan á þessu tímabili úr 6,1% niður í 4,0%.

Líkur eru á því að verðbólgan hjaðni hratt á næstunni og má reikna með því að hún verði komin niður í 2,5% verðbólgumarkmið Seðlabankans fyrir mitt næsta ár og fyrr ef frá eru talin áhrif óbeinna skatta.

Reikna má fastlega með því nú að peningastefnunefndin endurtaki yfirlýsingu sína um að haldist gengi krónunnar stöðugt eða styrkist, og verðbólga hjaðnar eins og spáð er, ættu forsendur fyrir frekari slökun peningalegs aðhalds að vera áfram til staðar.

"Má í því ljósi og með hliðsjón af erlendri fjármögnun vænta þess að nefndin lækki vexti bankans áfram á næstunni, en þó með þeim höftum sem áætlun um afnám gjaldeyrishafta fyrir lok efnahagsáætlunarinnar í ágúst 2011 setur vaxtastefnunni. Spáum við því að nefndin verði komin með veðlánavexti bankans niður í 6,0% í lok árs en á árinu eru eftir fjórir vaxtaákvörðunardagar," segir í Morgunkorninu.












Fleiri fréttir

Sjá meira


×