Viðskipti innlent

Vill að FME og SÍ dragi tilmælin til baka

Lóa Pind Aldísardóttir skrifar
Gísli Tryggvason vill að tilmæli Fjármálaeftirlitsins og Seðlabanka Íslands verði dregin til baka.
Gísli Tryggvason vill að tilmæli Fjármálaeftirlitsins og Seðlabanka Íslands verði dregin til baka.
Talsmaður neytenda vill að Fjármálaeftirlitið og Seðlabanki Íslands dragi til baka tilmæli sín um hvernig fjármálafyrirtæki skuli rukka af gengistryggðum lánum þar til niðurstaða Hæstaréttar liggur fyrir. Hann útilokar ekki að ríkið gæti orðið bótaskylt vegna tilmælanna.

Gísli Tryggvason talsmaður neytenda sendi formlegt bréf þessa efnis til Seðlabankans og Fjármálaeftirlitsins á föstudaginn. Eins og kunnugt er hafa nú tvenn tilmæli verið send fjármálafyrirtækjum um hvernig eigi að rukka af lánum í óvissuástandinu þar til Hæstiréttur sker úr um vaxtakjör ólöglegra gengislána. Annars vegar frá Gísla, sem vildi að menn rukkuðu fasta krónutölu af hverri lánaðri milljón, þ.e. af þeim lánum sem vafi leikur á að falli undir gengisdóma Hæstaréttar. Stóru bankarnir hafa fallist á tilmæli Gísla og hyggjast rukka 5000 krónur af hverri milljón af upphaflegum höfuðstól frá næstu mánaðamótum. En svo eru lánin sem bílalánafyrirtækin veittu og næsta öruggt að Hæstaréttardómarnir gilda um - þau fyrirtæki ætla ekki að innheimta greiðslur í júlí og ágúst - en síðan munu þau rukka skuldara í samræmi við tilmæli FME og Seðlabankans.

Vegna þessa hefur talsmaður neytenda formlega farið fram á það að þessar stofnanir dragi sín tilmæli til baka vegna - eins og hann orðar það í bréfinu vegna „valdþurrðar, rangs lagagrunns, skorts á lagastoð að formi og efni og ónógs undirbúnings." Ennfremur lítur talsmaður neytenda svo á að tilmælin séu íhlutun í fordæmisáhrif gengisdóma Hæstaréttar. Hann telur því ekki útilokað að ríkið gæti orðið bótaskylt standi tilmæli FME og Seðlabankans óhögguð.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×