Viðskipti innlent

Gylfi: Ekki hægt að sameina Arion banka og Íslandsbanka

Gylfi Magnússon efnahags- og viðskiptaráðherra segir að það sé ekki hægt að sameina Arion banka og Íslandsbanka eins og staðan er í dag. Sem kunnugt er af frétt hér á síðunni í morgun segir Finnur Sveinbjörnsson fráfarandi bankastjóri Arion banka að óformlegar viðræður hafi átt sér stað um slíka sameiningu.

„Ég tel að þessi sameining geti alls ekki gengið upp við núverandi aðstæður," segir Gylfi Magnússon. „Það blasir til dæmis við að Samkeppniseftirlitið myndi gera alvarlegar athugasemdir við slíka sameiningu."

Þá kemur fram í máli Gylfa að rök um fjármálastöðugleika gildi hér líka því augljóslega yrði sameinaður banki of stór og myndi sem slíkur ógna fjármálastöðugleika landsins. „Ég tel því að þessi sameining komi ekki til greina," segir Gylfi.

Það væri hinsvegar annað upp á teningnum ef Ísland tekur upp evruna sem gjaldmiðil. „Þá værum við orðin aðilar að mun stærra og öflugra fjármálakerfi sem gerði þessa sameiningu mögulega," segir Gylfi.

Gylfi segir að hinsvegar blasi við að það þurfi með einhverjum ráðum að draga úr hinum mikla kostnaði sem fylgir núverandi bankakerfi á landinu.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×