Viðskipti innlent

GAMMA: Stærsta fréttin er nýr verðtryggður skuldabréfaflokkur

„Stærsta fréttin í tilkynningunni er staðfesting á því að gefinn verður út nýr verðtryggður skuldabréfaflokkur á öðrum ársfjórðungi og er gert ráð fyrir að selja allt að 50 milljarða kr. á árinu og frekari stækkun ráðgerð næsta ár," segir í grein frá verðbréfafyrirtækinu GAMMA.

Í greininni er fjallað um útgáfáætlun Lánamála Ríkisins sem kom út á föstudaginn en í henni er áformað að fjármagna ríkissjóð með 170 milljarða kr. útgáfu ríkisskuldabréfa. Mestur hluti útgáfu ríkisskuldabréfa fer í endurgreiðslur á ríkisbréfum sem eru á gjalddaga í mars og desember á þessu ári, samtals 130 milljarða kr.

GAMMA segir að það er ánægjulegt að sjá að hinn nýi flokkur verður byggður upp á sama hátt og óverðtryggðu ríkisbréfin, þ.e. vaxtagreiðslubréf, nema að verðtryggingin bætist við; þetta er til samræmis við erlenda skuldabréfamarkaði. Einföldun skuldabréfamarkaðarins er mikilvæg og mjög jákvætt að sjá þróun í átt til samræmingar. „Við vonumst til þess að við útreikning á daglegri verðtryggingu verði notast við nákvæmlega sömu aðferð og Íbúðabréfin gera þ.e. línuleg brúun milli mánaðargilda vísitölunnar," segir í greininni.

Þá segir að þessi ákvörðun kemur ekki á óvart, mikil eftirspurn hefur verið eftir verðtryggðum bréfum undanfarnar vikur og hefur t.a.m. GAMMAi: Verðtryggt hækkað um 13,3% síðastliðna 6 mánuði á móti „einungis" 5,9% hækkun GAMMAxi: Óverðtryggt.

Verðbólguvæntingar hafa þar af leiðandi hækkað skarpt og eru orðnar um 4,2% til lengri tíma litið (10-15 ár). (Verðbólguvæntingar voru 4,4% á föstudaginn en lækkaði skarpt í viðskiptum í morgun). Rökrétt er fyrir ríkissjóð að skulda verðtryggt vegna tengingar verðbólgu við tekjur ríkissjóðs sem og aðhaldið sem verðtryggð útgáfa á að veita stjórnvöldum.

Þetta gæti mögulega verið fyrsta skrefið til þess að ríkissjóður fari að gefa út verðtryggt í auknari mæli á móti því að Íbúðalánasjóður taki upp óverðtryggða útgáfu. Hægt er að verðleggja núna löng óverðtryggð vaxtagreiðslubréf út frá vaxtakúrfu ríkisbréfa og samkvæmt útgáfáætlun á að halda áfram útgáfu og uppbyggingu á Ríkisbréfi 2025, sem er nú þegar orðinn 56 milljarða kr. að stærð.

„Mjög áhugavert væri að sjá óverðtryggð húsnæðislán í boði til almennings með föstum vöxtum og teljum við að grundvöllur sé að myndast fyrir þeirri útgáfu hjá Íbúðalánasjóði," segir í greininni.

Það virðist sem fréttirnar af þessari nýju útgáfu spariskírteina hafi verið óvæntar fyrir markaðinn þrátt fyrir að þetta hafi verið í umræðunni þar sem GAMMAi: Verðtryggt byrjaði í morgun á því að lækka um 1,25% en kom síðan aðeins tilbaka og hefur nú lækkað um 0,81%.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×