Viðskipti innlent

TIF telur kröfur banka og sparisjóða í þrotameðferð 0 krónur

Tryggingarsjóður innistæðueigenda og fjárfesta (TIF) telur að kröfur banka og sparisjóða sem eru í þrotameðferð á hendur sjóðnum vera 0 krónur.

Þetta kemur fram í svari Gylfa Magnússonar efnahags- og viðskiptaráðherra við fyrirspurn Eyglóar Harðardóttur þingmanns Framsóknarflokksins á Alþingi um kröfur fjárfesta á Tryggingarsjóð innstæðueigenda og fjárfesta.



Fyrirspurnin var í fjórum liðum þar á meðal hversu margir fjárfestar munu geta gert kröfu á Tryggingarsjóð innstæðueigenda og fjárfesta vegna reiðufjár eða verðbréfa sem voru í vörslu, umsjón eða umsýslu banka og sparisjóða sem eru nú í þrotameðferð? Og hver gæti verið upphæð þeirra krafna?

Í svari ráðherra kemur fram að efnahags- og viðskiptaráðuneytið hafi ekki undir höndum upplýsingar um starfsemi einstakra fyrirtækja á fjármálamarkaði. Þannig hefur ráðuneytið hvorki upplýsingar um fjölda viðskiptamanna, eða fjárfesta, sem eiga viðskipti við einstök fjármálafyrirtæki, né hefur það undir höndum upplýsingar um hvort verðbréf í eigu einstakra viðskiptamanna og í vörslu einstakra fjármálafyrirtækja kynnu að hafa misfarist hjá aðilum.

Með tilvísun til þess sem að framan greinir, þ.e. að efnahags- og viðskiptaráðuneytið hefur ekki bein afskipti af rekstri vörsluaðila verðbréfa og býr þar af leiðandi ekki yfir þeim upplýsingum sem um er spurt, sendi ráðuneytið Tryggingarsjóði innstæðueigenda og fjárfesta, TIF, bréf og óskaði eftir að sjóðurinn tæki saman svör við fyrirspurninni á grundvelli þeirra upplýsinga sem hann kynni að búa yfir.

Svar Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta er eftirfarandi: „Fjármálaeftirlitið hefur ekki gefið út álit þess efnis að greiðsluskylda hafi fallið á verðbréfadeild TIF vegna banka eða sparisjóða sem nú eru í þrotameðferð.

Sjóðnum hafa ekki borist kröfur á verðbréfadeild sjóðsins vegna þeirra banka og sparisjóða sem nú eru í þrotameðferð.

Með hliðsjón af ofanrituðu er það mat TIF að upphæð réttmætra krafna sé 0 kr."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×