Viðskipti innlent

Iceland Express semur við stóra markaðsskrifstofu

Iceland Express hefur gert samstarfssamning við öfluga sölu- og markaðsskrifstofu, AVIAREPS Group, í Bandaríkjunum og Póllandi. Er þetta gert til að efla markaðsstarf á þessum svæðum, því eins og kunnugt er mun Iceland Express hefja flug til New York og Winnipeg í Kanada í júníbyrjun. Þá mun félagið fljúga til þriggja staða í Póllandi í sumar til Varsjár, Kraká og Gdansk.

Í tilkynningu segir að AVIAREPS Group markaðsskrifstofan starfar bæði í Bandaríkjunum og Póllandi og reyndar miklu víðar og er með þeim stærstu á sínu sviði. Skrifstofan starfar fyrir 70 flugfélög víða um heim og 85 önnur fyrirtæki í ferðaþjónustu. AVIAREPS mun annast sölu á flugsætum í Bandaríkjunum og Póllandi fyrir Iceland Express, og byggja upp dreifikerfi. Þá verður skrifstofan til ráðgjafar í allri markaðssetningu í báðum löndum.

Mikill fjöldi Bandaríkjamanna með pólskan uppruna heimsækir Póllland árlega og Pólverjar ferðast mikið til Bandaríkjanna. Mikil eftirspurn er þegar eftir þessum ferðum hjá félaginu og margir farþeganna ætla að stoppa á Íslandi á leið sinni vestur um haf og öfugt.

„Þetta er mikilvægt skref í sókn félagsins inn á nýja markaði og við vonumst til að finna fyrir auknum fjölda ferðamanna frá þessum svæðum strax næsta sumar," segir Matthías Imsland forstjóri Iceland Express. „Þá ætti þetta að verða hvatning fyrir önnur fyrirtæki í ferðaþjónustu á Íslandi að horfa í auknum mæli til þessara markaða."








Fleiri fréttir

Sjá meira


×