Viðskipti innlent

Skráð atvinnuleysi var 8,2% í desember

Skráð atvinnuleysi í desember 2009 var 8,2% eða að meðaltali 13.776 manns og eykst atvinnuleysi um 3,1% að meðaltali frá nóvember eða um 419 manns. Á sama tíma á árinu 2008 var atvinnuleysi 4,8%, eða 7.902 manns.

Þetta kemur fram á vefsíðu Vinnumálastofnunnar. Þar segir að atvinnuleysi er nú mest á Suðurnesjum 13,6% en minnst á Vestfjörðum 3,1%. Atvinnuleysi eykst um 4,5% meðal karla en um 1,1% meðal kvenna. Atvinnuleysið er 8,9% meðal karla og 7,3% meðal kvenna.

Fjöldi þeirra sem hafa verið atvinnulausir lengur en 6 mánuði er nú 7.457 og eykst úr 7.394 í lok nóvember og er um 49% þeirra sem eru á atvinnuleysisskrá í lok desember. Þeim sem verið hafa atvinnulausir í meira en eitt ár fjölgar talsvert eða úr 2.505 í lok nóvember í 3.224 í lok desember.

Alls voru 2.754 á aldrinum 16-24 ára atvinnulausir í lok desember en 2.701 í lok nóvember eða um 18% allra atvinnulausra í desember.

Yfirleitt versnar atvinnuástandið frá desember til janúar m.a. vegna árstíðasveiflu. Nýskráningar fyrstu daga janúar benda til að atvinnuleysi muni aukast og áætlar Vinnumálastofnun að atvinnuleysið í janúar verði á bilinu 8,6%-9,1%. Í fyrra var atvinnuleysið 6,6% í janúar.

Sjá nánar stöðu á vinnumarkaði í desember 2009










Fleiri fréttir

Sjá meira


×