Viðskipti innlent

Sementsverksmiðjan ógreidd í sjö ár

Ríkisendurskoðun gagnrýnir hvernig fjármálaráðuneytið hefur haldið á málum vegna sölu á Sementsverksmiðjunni árið 2003. Söluverðið hefur enn ekki verið greitt. Fréttablaðið/GVA
Ríkisendurskoðun gagnrýnir hvernig fjármálaráðuneytið hefur haldið á málum vegna sölu á Sementsverksmiðjunni árið 2003. Söluverðið hefur enn ekki verið greitt. Fréttablaðið/GVA
Ríkið hefur ekki enn fengið greitt fyrir Sementsverksmiðjuna hf., sem seld var Íslensku sementi ehf. í október 2003. Söluverðið var 68 milljónir króna, en skuld við ríkissjóð stendur nú í 118 milljónum króna með vöxtum og dráttarvöxtum, að því er fram kemur í skýrslu Ríkisendurskoðunar. Stofnunin gagnrýnir hvernig fjármálaráðuneytið hefur haldið á málinu.

Fyrirvarar voru í kaupsamningnum um samþykki ESA, eftirlitsstofnunar EFTA, og Samkeppniseftirlitsins. Rannsókn ESA tók fimm ár, og átelur Ríkisendurskoðun eftirlitsstofnunina fyrir hversu langan tíma rannsóknin tók.

Eftir að ESA og Samkeppniseftirlitið höfðu samþykkt söluna var reynt að innheimta söluverðið frá kaupanda. Lögmaður Íslensks sements lýsti því hins vegar yfir að þar sem ákvörðun ESA hafi ekki verið birt hefði fyrirvörum sölusamningsins ekki verið aflétt.

Í samningnum var kveðið á um að kaupandinn skyldi leggja fram bankaábyrgð fyrir kaupverðinu sem gilda ætti til greiðsludags. Við undirritun lagði kaupandinn hins vegar fram bankaábyrgð sem gilti einungis í tæpa sex mánuði, án þess að ríkið sem seljandi gerði athugasemd við það.

Fjársýsla ríkisins sendi innheimtubréf til Íslensks sements í maí síðastliðnum. Í skýrslu ríkisendurskoðunar segir að bréfinu hafi ekki verið svarað.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×