Viðskipti innlent

Staða ríkissjóðs heldur áfram að versna

Greiðsluuppgjör ríkissjóðs fyrir fyrstu fjóra mánuði ársins 2010 liggur nú fyrir. Samkvæmt uppgjörinu er handbært fé frá rekstri neikvætt um 11,1 milljarða kr. Tekjur reyndust 4,2 milljörðum kr. minni en í fyrra á meðan gjöldin jukust um 3,5 milljarða kr. Hreinn lánsfjárjöfnuður var neikvæður um 16,4 miljarða kr. sem er 3,9 milljarða kr. verri staða en á sama tíma í fyrra.

Innheimtar tekjur ríkissjóðs námu 36,0 milljörðum kr. í apríl og 147,2 milljörðum kr. samtals á fyrstu fjórum mánuðum ársins. Tekjur mánaðarins voru 2,4 milljarða kr. yfir áætlun fjárlaga en samanlagt frá áramótum eru tekjurnar þó 1,4 milljarða kr. eða 0,9% undir áætlun. Ef horft er á skatttekjur eingöngu frá ársbyrjun er útkoman 0,1% yfir áætlun.

Skatttekjur og tryggingagjöld námu 33,3 milljörðum kr. í aprílmánuði og 135,3 miljarða kr. samtals í janúar-apríl, sem er 3,4 milljörðum kr. meira en á sama tíma 2009. Staðgreiðsla á tekjuskatti og útsvari nam 47,2 milljörðum kr. samtals í febrúar-apríl og er það 1,6 milljarði kr. meira en á sama tíma í fyrra. Þar af rann sem tekjuskattur í ríkissjóð 22,5 milljarða kr miðað við 20,8 milljarða kr. á sama tíma í fyrra. Hér er um að ræða skil á tekjuskatti og útsvari í staðgreiðslukerfinu af launum fyrstu þriggja mánaða ársins sem eru fyrstu launamánuðirnir eftir kerfisbreytinguna um sl. áramót þegar tekið var upp þriggja þrepa tekjuskattskerfi.

Greidd gjöld námu 171,2 milljarða kr. og jukust um 3,5 milljarða kr. frá fyrra ári, eða 2,1%. Milli ára jukust vaxtagjöld ríkissjóðs um 7,2 milljarða kr. Útgjöld til menntamála jukust um 1,3 milljarð kr. þar sem útgjöld til Lánasjóðs íslenskra námsmanna jukust um 1,8 milljarð kr. milli ára. Óregluleg útgjöld jukust um 960 milljónir króna milli ára sem útgjöld vegna ríkisábyrgða skýra að öllu leyti.

Útgjöld til löggæslu, réttargæslu og öryggismála aukast um 771 milljón króna milli ára þar sem fjárfesting Landhelgissjóðs í varðskipi skýrir hækkunina að langstærstu leyti. Útgjöld til efnahags- og atvinnumála dragast saman um 4,4 milljarða kr. milli ára þar sem framkvæmdir Vegagerðarinnar skýra 2,5 milljarða kr., flugvellir og flugleiðsöguþjónusta 450 milljónir króna og Fjarskiptasjóður 402 milljónir.

Útgjöld til menningar- íþrótta- og trúmála dragast saman um 967 milljónir króna milli ára, útgjöld til almannatrygginga og velferðarmála um 857 milljónir og útgjöld til heilbrigðismála um 838 milljónir króna. Útgjöld til annarra málaflokka breytast minna en þau sem upp hafa verið talin.

Hreinn lánsfjárjöfnuður var neikvæður um 16,4 milljarða kr. sem er 3,9 milljarða kr. verri staða en á sama tíma í fyrra. Afborganir af lánum ríkissjóðs námu 72 milljörðum kr. og voru þær vegna innlendra skulda. Aðallega er um að ræða innlausn ríkisbréfa á gjalddaga í mars. Heildarlánsfjárþörf ríkissjóðs var því 88,4 milljarðar kr. Innlendar lántökur námu 62,2 milljarðar kr. þar sem seld voru ríkisbréf fyrir 55,3 milljarðar kr. og verðtryggð ríkisbréf fyrir 13 milljarða kr. Stofn ríkisvíxla lækkaði um 6 milljarða kr. Staða ríkissjóðs í Seðlabanka lækkaði því um tæpa 28,8 milljarða kr. á fyrstu fjórum mánuðum ársins.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×