Viðskipti innlent

Mikil lækkun á verðbólguálagi skuldabréfa

Þriggja ára verðbólguálag á skuldabréfum lækkað úr 4,7% í 1,25% á fyrstu 6 mánuðum ársins, en álagið hefur ekki mælst svo lágt frá árinu 2005.

Greining Arion banka fjallar um málið í Markaðspunktum sínum. Þar segir að krafa óverðtryggðra bréfa er í dag á bilinu 2,8-6,2% en til samanburðar var krafa bréfanna í ársbyrjun í kringum 7,5-8 prósent.

Á sama tíma hefur krafa verðtryggðra bréfa einnig lækkað en þó mun minna ef aðeins er horft til kröfubreytingar, eða um 30-40 punkta frá áramótum og eru nú í kringum 3-3,5%.

„Þessi mikla kröfulækkun óverðtryggðra bréfa hefur skilað sér í hratt lækkandi verðbólguálagi (sem í grófum dráttum er mismunur á óverðtryggðri og verðtryggðri kröfu). Þannig hefur þriggja ára verðbólguálag lækkað úr 4,7% í 1,25% á fyrstu 6 mánuðum ársins, en álagið hefur ekki mælst svo lágt frá því að byrjað var að gefa út HFF bréfin árið 2005 (ef litið er framhjá hrunmánuðum september og október). Svipaða sögu má segja um verðbólguálagið til 8 ára en þar hefur álagið lækkað úr 4,2% í 2,6%, þó breytingin sé minni," segir í Markaðspunktunum.

Greining veltir því fyrir sér hvort þetta lága verðbólguálag standist þegar horft fram á veginn. „ Ef við brjótum verðbólguálagið á skuldabréfamarkaði niður eftir árum þá gera fjárfestar ráð fyrir að verðbólgan verði undir eða í kringum 1,6% á næstu þremur árum," segir í Markaðspunktunum.

„Eftir eins mikla verðbólgutíð og verið hefur eiga eflaust margir erfitt með að ímynda sér að verðbólgan verði undir markmiði í nokkur ár - hins vegar hefur slíkt gerst hér áður fyrr. Á tímabilinu 1994-1999 mældist meðalverðbólgan 1,6% (m.v. ársfjórðungsverðbólgu á ársgrundvelli) en á því tímabili var gengið nokkuð stöðugt. Hins vegar má velta fyrir sér hvort raunhæft sé að ætla að meðalverðbólga til næstu 8 ára verði í kringum markmið Seðlabankans (2,5%)!"










Fleiri fréttir

Sjá meira


×