Lífið

Rögnu Lóu boðið að taka þátt í breskum raunveruleikaþætti

Rögnu Lóu Stefánsdóttur hefur verið boðið að taka þátt í breskum raunveruleikaþætti. Hún mun auk þess kryfja leiki HM í knattspyrnu til mergjar á Stöð 2 Sport 2.  fréttablaðið/anton
Rögnu Lóu Stefánsdóttur hefur verið boðið að taka þátt í breskum raunveruleikaþætti. Hún mun auk þess kryfja leiki HM í knattspyrnu til mergjar á Stöð 2 Sport 2. fréttablaðið/anton

Rögnu Lóu Stefánsdóttur hefur verið boðið að taka þátt í breskum raunveruleikaþætti þar sem fylgst er með lífi venjulegs fjölskyldufólks. Í samtali við Fréttablaðið segist hún ekki hafa hugmynd um hvað hún eigi að gera; hvort hún eigi að taka þessu boði og hleypa þar með sjónvarpsmönnum inn í líf sitt og fjölskyldu sinnar. „Ég er eiginlega í hálfgerðu sjokki," segir Ragna Lóa sem um árabil var ein fremsta knattspyrnukona þjóðarinnar en býr nú í Portsmouth ásamt eiginmanni sínum, Hermanni Hreiðarssyni, leikmanni Portsmouth og fyrirliða íslenska landsliðsins.

Ragna vill sem minnst um raunveruleikaþættina segja að svo komnu máli enda sé ekkert frágengið með þátttöku hennar. Eftir því sem Fréttablaðið kemst næst er um að ræða gríðarlega stóra framleiðslu og miðað við það álit sem Bretar hafa á Íslandi í kjölfar Iceasave-deilunnar og öskunnar frá Eyjafjallajökli væri þetta kærkomið tækifæri fyrir Rögnu að lagfæra aðeins ímynd þjóðarinnar.

„Ég sagði reyndar við Hermann á sínum tíma að þegar ferillinn hans væri búinn myndi ég taka við, hver veit nema það sé að rætast," segir Ragna Lóa og hlær. Hún hefur reyndar þurft að þola hálf farlama Hermann sem sleit hásinina í leik gegn Tottenham fyrir nokkru. Tímabil Portsmouth í heild hefur ekki verið neinn dans á rósum því félagið féll úr ensku úrvalsdeildinni, fjárhagsvandræði þess hafa verið í stöðugu kastljósi fjölmiðlanna og svona mætti lengi telja.

„Við erum samt eins og ein stór fjölskylda, þetta hefur þjappað öllum saman. Þetta er eins og að vera á stóru ættarmóti, það leggjast allir á eitt," segir Ragna sem mun að sjálfsögðu fylgja liðinu á Wembley þegar það etur kappi gegn milljarðaliði Chelsea í úrslitum enska bikarsins.

Ragna mun hins vegar þreyta frumraun sína í sjónvarpi þegar hún stýrir HM 4-4-2 á Stöð 2 Sport 2, óháð því hvort hún tekur þátt í bresku raunveruleikasjónvarpsseríunni. Í þáttunum verða leikir heimsmeistaramótsins í knattspyrnu, sem fram fer í Suður-Afríku, krufnir til mergjar en með henni í þættinum verður Logi Bergmann Eiðsson.

„Þetta eru auðvitað forréttindi, að fá vinnu við áhugamálið sitt. Fótbolti er lífið mitt og þetta er bara happdrættisvinningur fyrir manneskju eins og mig," segir Ragna og viðurkennir að hjartað slái með enskum á HM í sumar. „Margir af leikmönnum liðsins eru persónulegir vinir manns og að horfa á enska landsliðið er bara eins og að horfa á félagsliðið sitt. Við erum bæði alveg rosalega spennt fyrir HM í sumar."

freyrgigja@frettabladid.is

 

 

 

 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.