Viðskipti innlent

Tæp 15% fækkun erlendra gesta í maí

Um 28 þúsund erlendir gestir fóru frá landinu í maímánuði síðastliðnum samkvæmt brottfarartalningum Ferðamálastofu í Leifsstöð og er því um að ræða 19% fækkun frá því í maí á síðasta ári. Að meðtöldum 1.300 brottförum erlendra gesta um Akureyrarflugvöll nemur fækkun erlendra gesta 14,8% milli ára.

Þetta kemur fram á vefsíðu Ferðamálastofu. Þar segir að sem vænta mátti eru áhrif gossins á flugsamgöngur til og frá landinu hér að koma fram. Niðurstöður úr talningunum í Leifsstöð sýna fækkun frá öllum mörkuðum, mesta frá Bretlandi og Norðurlöndunum eða í kringum fjórðungsfækkun og frá fjarmörkuðum eða um fimmtungsfækkun. Gestum frá Mið- og S-Evrópu fækkar um 11% en minnst er fækkunin frá Norður Ameríku eða um 5,1%.

Frá áramótum hafa 116 þúsund erlendir gestir farið frá landinu um Leifsstöð sem er 6,5 prósenta fækkun frá árinu áður. Að viðbættum 2.300 brottförum erlendra gesta í millilandaflugi um Akureyrarflugvöll nemur fækkunin 4,6%.

Brottförum Íslendinga um Leifsstöð fjölgaði hins vegar um tæp 4% í maí, voru 23.200 í maí 2010 en 22.400 árinu áður. Brottförum Íslendinga frá áramótum hefur fjölgað um 2,8% í samanburði við sama tímabil á fyrra ári.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×