Viðskipti innlent

Hraða úrvinnslu skuldamála lítilla og meðalstórra fyrirtækja

MYND/Vilhelm
Víðtækt samkomulag hefur náðst um leiðir við úrvinnslu skuldamála lítilla og meðalstórra fyrirtækja. Að því standa efnahags- og viðskiptaráðuneytið, Félag atvinnurekenda, fjármálaráðuneytið, Samtök atvinnulífsins, Samtök fjármálafyrirtækja og Viðskiptaráð Íslands. Skrifað var undir samkomulagið síðdegis í dag í Rúgbrauðsgerðinni.

Að mati þeirra sem undir samkomulagið rita, er það ein af nauðsynlegum forsendum nýrrar fjárfestingar í íslensku hagkerfi sem aftur leiðir af sér hagvöxt og störf.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá efnahags- og viðskiptaráðuneytinu.

Samkomulagið felur í sér að úrvinnslu skuldamála lítilla og meðalstórra fyrirtækja verði hraðað verulega. Stefnt er að því að fyrir 1. júní 2011 hafi fjármálafyrirtæki lokið skoðun á fjárhagsstöðu þessara fyrirtækja og gert lífvænlegum fyrirtækjum sem eru í fjárhagsvanda tilboð um úrvinnslu skulda þeirra.

Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, segir þetta mikilvægt samkomulag. „Það dregur úr óvissu og er liður í að skapa skilyrði fyrir auknar fjárfestingar sem eru of litlar í dag til að viðhalda samkeppnishæfni atvinnulífsins. Sóknarfærin í atvinnulífinu og möguleikarnir til þess að bæta kjör fólks verða að koma í gegnum auknar fjárfestingar á næstu árum, fyrst og fremst í útflutningsgreinum. Þar er hægt að skapa varanleg störf, tryggja auknar útflutningstekjur, styrkari gjaldmiðil og betri lífskjör til lengri tíma," segir hann.

Miðað er við að heildarskuldsetning fyrirtækis að lokinni úrvinnslu fari ekki fram úr endurmetnu eigna- eða rekstrarvirði þess, hvoru sem er hærra, að viðbættu virði annarra trygginga og ábyrgða fyrir skuldum viðkomandi fyrirtækis.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×