Viðskipti innlent

Greiddu út ólöglegan arð upp á milljarða

Guðný Helga Herbertsdóttir skrifar

Ríflega tvöhundruð fyrirtæki greiddu út ólögmætan arð á síðustu fimm árum samkvæmt fyrstu niðurstöðu skattayfirvalda. Grunur leikur á að arðgreiðslurnar nemi nokkrum milljörðum króna.

Skattyfirvöld hafa undanfarið skoðað hvort fyrirtæki hafi greitt út ólögmætan arð. Skoðunin nær til síðustu fimm ára en grunur leikur á að nokkuð algengt hafi verið að lög hafi verið brotin þegar arður var greiddur út úr félögum.

Samkvæmt hlutafélagalögum má ekki greiða út arð á fyrsta starfsári félags. Þá má ekki greiða út arð ef fyrirtækið hefur verið rekið með tapi eða ef arðgreiðslustofninn er neikvæður.

Samkvæmt heimildum fréttastofu hefur fyrsta athugun skattyfirvalda leitt í ljós að ríflega 200 fyrirtæki hafi greitt út ólögmætan arð. Flest þessara fyrirtækja eru lítil og nema arðgreiðslurnar að jafnaði um 10 til 15 milljónum króna. Í heildina þó nokkrum milljörðum.

Stuðst var við vélræna leit og leikur grunur á að nokkur stór fyrirtæki hafi af einhverjum ástæðum ekki komið fram við hana. Munu skattyfirvöld því fara nánar yfir framtöl þeirra.

Alla jafna þarf að greiða fjármagnstekjuskatt af arðgreiðslum sem nemur í dag 18%. Ólögmætar arðgreiðslur verða skattlagðar sem launatekjur, eða í uþb 40% skattþrepi.

Að auki hafa skattyfirvöld heimild til að leggja 25% álag ofan á það. Skattálagning mun í flestum tilvikum beinast að þeim sem fengu arðgreiðslurnar. Eigendur þessara 200 fyrirtækja munu á næstu vikum og mánuðum fá fyrirspurn um málið frá skattyfirvöldum.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×