Skoðun

Stjórnarskrár Norðurlanda: Stiklað á stóru

Þorvaldur Gylfason skrifar

Norska stjórnarskráin tók gildi 17. maí 1814. Henni var síðast breytt 2007. Hún er stutt og laggóð, aðeins 112 greinar, en af þeim hafa níu greinar verið felldar úr gildi, svo að 103 greinar standa eftir. Reglur um þingkosningar og úthlutun þingsæta eru bundnar í stjórnarskránni. Þrjá fjórðu hluta atkvæða á þingi þarf til að heimila Norðmönnum að deila fullveldi sínu með alþjóðasamtökum, sem Noregur á aðild að, og þurfa tveir þriðju hlutar þingmanna að vera viðstaddir líkt og þarf til að breyta stjórnarskránni. Í stjórnarskránni er lagt bann við afturvirkni laga. Og þar er einnig ákvæði um, að ný og varanleg forréttindi, sem skerða viðskiptafrelsi og athafnafrelsi, megi framvegis engum veita (101. grein). Um náttúruauðlindir segir, að allir eigi rétt á heilbrigðu, vel varðveittu og fjölbreyttu umhverfi og þennan rétt skuli tryggja með því að nýta náttúruauðlindir þannig, að þær skili arði einnig til óborinna kynslóða (110. grein).

Danska stjórnarskráin er svipuð hinni norsku nema enn styttri, aðeins 89 greinar. Hún tók fyrst gildi 1849 og var síðast breytt 1953, þegar ný ákvæði varðandi aðild Danmerkur að alþjóðasamstarfi svo sem Evrópusambandinu voru felld inn í stjórnarskrána. Þessari breytingu var ætlað að reisa skorður við framsali fullveldis með því að kveða á um aukinn þingmeirihluta líkt og í Noregi eða þjóðaratkvæði. Danir hafa ekki bætt nýjum mannréttindaákvæðum í stjórnarskrá sína.

Enn styttri er stjórnarskrá Íslands frá 1944, aðeins 79 greinar. Hún er að stofni til samhljóða stjórnarskrá Danmerkur, en íslenzku stjórnarskránni hefur verið breytt sjö sinnum, og munar þar mest um ný mannréttindaákvæði, sem var bætt í stjórnarskrána 1995. Ákvæðum um aðild Íslands að alþjóðasamstarfi að danskri fyrirmynd var þó ekki bætt í stjórnarskrána.

Finnska stjórnarskráin er með öðru sniði og lengri, 131 grein. Hún er upprunalega frá 1919, en henni hefur verið breytt nokkrum sinnum. Fyrst var henni breytt 1983 með nýjum ákvæðum um starfshætti þingsins og síðan aftur 1987 með ákvæðum um ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslur. Þá var henni breytt 1991 með ákvæðum um þjóðkjör forsetans, sem þingið hafði áður kjörið. Ný mannréttindaákvæði voru sett í stjórnarskrána 1995, og loks samþykktu þingið og forsetinn nýja stjórnarskrá handa Finnlandi árið 2000, þar sem fyrri stjórnarskrá og aðrir lagabálkar, einkum um landsdóm, voru felldir í eina heild. Í finnsku stjórnarskránni eru ýmis eftirtektarverð ákvæði, t.d. ákvæði um aðgang að upplýsingum (12. grein) líkt og í Svíþjóð, um ókeypis menntun og frelsi vísinda, lista og æðri menntunar (16. grein) og um rétt til félagsþjónustu handa þeim, sem höllum fæti standa (19. grein). Staða umboðsmanns þingsins er tryggð í finnsku stjórnarskránni (38. grein).

Eistar gengu að sumu leyti enn lengra en Finnar með nýrri stjórnarskrá 1992. Þar eru greinarnar 168 að tölu. Sjö greinar fjalla um ríkisendurskoðun til að tryggja stöðu hennar. Aðrar sjö greinar fjalla um lögsögumann, sem er ætlað að tryggja samræmi í löggjöf líkt og stjórnlagadómstóll. Níu greinar fjalla um stjórn fjármála ríkisins og peningamála líkt og finnska stjórnarskráin gerir í 12 greinum ólíkt stjórnarskrám Noregs og Danmerkur.

Sænska stjórnarskráin er sér á parti. Hún er safn fjögurra stöðulagabálka, og fjallar einn þeirra um konungdæmið (frá 1810), annar um frelsi fjölmiðla, þar á meðal upplýsingaskyldu stjórnvalda (1949), enn annar um ríkisvaldið (1974), og einn enn um málfrelsi (1991). Stjórnarskráin tryggir, að allar upplýsingar í vörslu opinberra aðila eru aðgengilegar hverjum sem er, og þarf sá, sem biður um þær, ekki að segja til nafns. Þetta á þó ekki við um sjúkraskrár og sambærilegar trúnaðarupplýsingar. Þessi ákvæði sænsku stjórnarskrárinnar eru jafnan túlkuð vítt, svo að yfirleitt er erfitt fyrir yfirvöld að neita að afhenda upplýsingar aðrar en augljós trúnaðarmál. Hugsunin á bak við þessi ákvæði er, að ríkisvaldið þjóni þegnunum og megi því ekki halda upplýsingum leyndum í sjálfsvörn. Auk þessa er það stjórnarskrárbrot að grafast fyrir um, hver hafi lekið upplýsingum til fjölmiðla, nema lekinn sjálfur varði við lög, t.d. varðandi landvarnir. Árið 1999 var kirkjan skilin frá sænska ríkinu og er nú sjálfstæð stofnun líkt og í Finnlandi, en Danir og Norðmenn hafa þjóðkirkju eins og Íslendingar.


Skoðun

Sjá meira


×