Erlent

Íranska konan hengd í dag

Óli Tynes skrifar
Sakineh Ashtiani.
Sakineh Ashtiani.

Íranska konan sem var dæmd til að vera grýtt í hel verður hengd í dag, að sögn þýskra mannréttindasamtaka. Sakineh Ashtiani var dæmd til dauða fyrir að hafa mök utan hjónabands. Þegar mikil mótmælaalda fór um heiminn vegna þessa var bætt við ákæru um að hún hefði átt þátt í að myrða eiginmann sinn.

Íranska sjónvarpið birti því til sönnunar myndskeið þar sem kona með hulið andlit var sögð vera Ashtiani. Hún viðurkenndi þar að hafa átt þátt í morðinu og skammaðist út í lögfræðing sinn fyrir að vekja athygli á málinu á Vesturlöndum. Astiani er 43 ára gömul og tveggja barna móðir.

Samskipti Írans og Vesturlanda hafa enn versnað vegna þessa. Brasilía sem á náið samband við Íran bauðst til þess að veita henni hæli en Íranar höfnuðu því.

Sky fréttastofan segir að breska utanríkisráðuneytið hafi haft samband við íranska sendiráðið í Lundúnum vegna fréttar þýsku mannréttindasamtakanna.

Sendiráðið hafi hvorki getað staðfest né neitað því að Ashtiani verði hengd í dag.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×