Viðskipti innlent

Aflétting gjaldeyrishafta í kortunum á næstu vikum

Fyrstu skref í afléttingu gjaldeyrishaftanna eru í kortunum og verða líklega stigin á næstu vikum eða mánuðum ef marka má orð Seðlabankastjóra á vaxtaákvörðunarfundi bankans sem fram fór síðastliðinn miðvikudag.

Fjallað er um málið í Morgunkorni greiningar Íslandsbanka. Þar segir að í ljósi nýlegs dóms Hæstaréttar um gengistryggð lán og yfirvofandi þriðju endurskoðunar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (AGS) eru nú, að mati Seðlabankans, flest skilyrði til staðar til að stíga næsta skref í afnámi hafta, sem veldur því að meiri áhersla er lögð á það nú að hefja afléttingu haftanna en áður.

Ekki fór mikið fyrir nákvæmum útlistunum eða tímasetningum varðandi þetta mikilvæga atriði í fyrradag, en tímasett áætlun mun vera í smíðum innan Seðlabankans og verður birt innan tíðar samkvæmt því sem kom fram á fundinum.

Í ljósi þessara yfirlýsinga og skorts á nánari upplýsingum um útfærslu er ekki úr vegi að dusta rykið af áætlun Seðlabankans um afnám gjaldeyrishafta sem birt var fyrir rúmlega ári síðan, en ekki er ólíklegt að sú áætlun sem er nú í smíðum muni bera einhvern keim af henni.

Þar er lögð áhersla á að flokka eignaflokka eftir líftíma þeirra og aflétta fyrst höftum á þá flokka sem hafa lengsta líftímann. Síðar verður svo hafist handa við að létta höftum af flokkum sem hafa miðlungslangan og skamman tíma. Ekki er þó útilokað að tappað verði af einhverju magni úr styttri flokkunum í gegnum skiptiútboð eða uppboð áður en höftunum verður aflétt en nánari útlistun á þessu verður eflaust að finna í nýrri áætlun sem væntanleg er.

Ekki er allskostar ólíklegt að fyrstu drög af því hvernig sú áætlun lítur út verði að finna í skýrslu AGS sem mun koma út samhliða því að þriðja endurskoðun á efnahagsáætluninni fer fram í framkvæmdastjórn sjóðsins um miðja næstu viku.

Gríðarlega mikilvægt er að sú áætlun um afnám gjaldeyrishafta sem nú er í burðarliðnum muni standast betur en sú áætlun sem gefin var út á síðasta ári. Afar slæmt væri fyrir trúverðugleika Seðlabankans ef að út kæmi á hverju ári endurnýjuð áætlun um afnám gjaldeyrishafta án þess að nokkur framkvæmd fylgdi í þeim efnum, að því er segir í Morgunkorninu.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×