Viðskipti innlent

FME sektar Marel um 5 milljónir

Stjórn Fjármálaeftirlitsins (FME) hefur sektað Marel Food Systems um 5 milljónir kr. vegna brota gegn þeim lögum um verðbréfaviðskipti sem fjalla um innherjaupplýsingar.

Fjallað er um málið á vefsíðu FME. Þar segir að þann 25. september 2009 birti Marel Food Systems hf. (Marel) tilkynningu um að sjóðir á vegum Columbia Wanger Asset Managament (Columbia) hefðu fest kaup á samtals 32,2 milljónum hluta í Marel sem jafngildir 5,2% eignarhlut.

Það var mat Fjármálaeftirlitsins að innherjaupplýsingar hefðu myndast vegna kaupanna hjá Marel þann 23. september 2009 þar sem að á stjórnarfundi félagsins þann dag hafi stjórn félagsins heimilað og tekið ákvörðun um útgáfu nýrra hluta og sölu eigin bréfa til Columbia.

Mat Marel var að innherjaupplýsingar hefðu ekki myndast fyrr en að kvöldi 25. september. Þá hafi legið fyrir að kaupandi hafði fullan hug á að eignast bréfin, verðhugmyndir hafi verið orðnar nokkuð fastmótaðar og þ.a.l. hafi seljendur verið tilbúnir til þess að selja bréfin auk þess sem afhendingartími var ákveðinn þennan dag ásamt því að ljóst var orðið að ekki yrðu gerð frekari skilyrði af hálfu kaupanda.

Fjármálaeftirlitið taldi hins vegar að þær upplýsingar sem fram komu á stjórnarfundi félagsins hafi verið nægjanlega tilgreindar og nákvæmar í skilningi laganna enda er þar tekið fram að selja eigi mikið magn hluta í félaginu, til hvaða aðila eigi að selja hlutina, hve marga hluti og með hvaða hætti, þ.e. með því að nota heimild til útgáfu nýrra hluta og sölu eigin bréfa, ásamt því að annað félag selji Columbia samhliða hluti sína í Marel.

Fjármálaeftirlitið taldi að þó svo að ekki hafi legið fyrir fyrr en að kvöldi 25. september 2009 að samningar myndu nást við Columbia um kaup á hlutum í Marel, þá hafi upplýsingarnar verið þess eðlis að þær gæfu til kynna aðstæður sem eru fyrir hendi eða sem ætla má að verði fyrir hendi eða atburð sem hefur átt sér stað eða sem ætla má að muni eiga sér stað samanber reglugerð um innherjaupplýsingar og markaðssvik.

Fjármálaeftirlitið taldi einnig að Marel hefði borið að senda Fjármálaeftirlitinu lista yfir þá aðila sem fengu aðgang að upplýsingunum en voru ekki á fruminnherjalista félagsins og tilkynna viðkomandi innherjum um það skriflega ásamt því að greina þeim frá þeim réttarreglum sem gilda um innherja og meðferð innherjaupplýsinga

Við ákvörðun stjórnvaldssektar var litið til alvarleika brots, málsatvika og þess tíma sem brotið stóð yfir sem og sambærilegra mála. Með hliðsjón af framangreindu þótti hæfilegt að gera Marel stjórnvaldssekt að fjárhæð kr. 5.000.000,-.

Marel fór fram á að ákvörðun Fjármálaeftirlitsins yrði afturkölluð þar sem félagið taldi ákvörðunina háða verulegum annmarka og þar með ógildanlega. Fjármálaeftirlitið féllst ekki á þau rök og vakti athygli á því að vilji aðili ekki una ákvörðun Fjármálaeftirlitsins getur hann höfðað mál til ógildingar fyrir dómstólum samkvæmt lögum opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×