Innlent

Býst ekki við mörgum úrsögnum úr flokknum

Heiðrún Lind Marteinsdóttir, varaformaður Heimssýnar og sjálfstæðismaður, segist ekki eiga von á því að mikið verðu um úrsagnir í Sjálfstæðisflokknum í kjölfar samþykktar landsfundar þar sem hvatt er til þess að hætt verði við aðildarviðræður við Evrópusambandið. Þetta kom fram í þættinum Á Sprengisandi, í umsjón Sigurjóns M. Egilssonar.

Heiðrún segist telja að um 20 til 25 prósent sjálfstæðismanna séu fylgjandi aðild að Evrópusambandinu. Meirihlutinn ráði einfaldlega í þessum efnum því telur hún að skynsamlegt hafi verið að samþykkja tillöguna. Að mati Heiðrúnar er heldur ekki skynsamlegt að standa í ESB aðildarviðræðum núna því brýnni verkefni bíða manna.

Heiðrún sagðist einnig vera þeirrar skoðunnar að almenningur sé orðinn þreyttur á málamiðlunum og því hafi verið ánægjulegt að sjá landsfund Sjálfstæðismanna forðast það. Þeir aðilar innan flokksins sem eru meðfylgjandi ESB aðild ættu að vinna þeim skoðunum meira fylgi innan flokksins áður en þeir geti farið fram á málamiðlanir.

Jón Steindór Valdimarsson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins, sem er fylgjandi ESB aðild, benti á í sama þætti að þrátt fyrir skoðannakannanir bendi til þess að meirihluti þjóðarinnar sé andvígur aðild þá hafi meirihlutinn verið á því síðastliðinn áratug að sækja eigi um aðild. Lengri tími þurfi að líða til þess að geta slegið því föstu að meirihluti þjóðarinnar sé orðinn andvígur aðildarviðræðum.

Jón Steindór sagði að tíminn til aðildarumsóknar væri hvorki betri né verri nú um stundir. Andstæðingar ESB væru hinsvegar aldrei á því að rétti tíminn sé runninn upp.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×