Viðskipti innlent

Veltan í dagvöruversluninni jókst í maí

Rannsóknarsetur verslunarinnar birti tölur um veltu í smásöluverslun í maí nú í morgun. Frá fyrri mánuði jókst veltan í dagvöruverslun um 7,6% á föstu verðlagi.

Fjallað er um málið í Morgunkorni greiningar Íslandsbanka. Þar segir að þetta gæti bent til þess að einkaneyslan sé nú aftur að taka við sér eftir tímabundið bakslag í vor. Þannig virðist verslun hafa tekið vel við sér í maí á öllum sviðum.

Sala áfengis jókst um 21% frá fyrri mánuði, velta í fataverslunum jókst um 33% og verslun með skó jókst um 23% frá fyrri mánuði. Velta í verslun raftækja jókst um 12% frá fyrri mánuði og um 8% í húsgagnaverslun.

Veltan í öllum flokkum verslana í nýliðnum maí er þó mun minni en í sama mánuði fyrir ári síðan. Veltan í dagvöruverslun hefur dregist saman um 3,7% á föstu verðlagi borið saman við maí 2009. Þá hefur velta fataverslana dregist saman um 33% á sama tímabili og sala á skóm um 23%. Loks hefur sala á raftækjum dregist saman um 12%.

Enn eru heimilin því með lágmarks umsvif og þarf engan að undra í ljósi þess að atvinnuleysi er enn afar mikið, ekki er útséð með að eignaverð muni enn lækka, frekari skattahækkanir gætu verið í pípunum og kaupmáttur launa hefur nú rýrnað um 13% frá því að hann var hér mestur í ársbyrjun 2008.

Telja má líklegt að kaupmáttur komi til með að skerðast enn frekar á næstunni enda nokkuð ljóst m.v. ástandið á vinnumarkaði að samningsstaða flestra launþega er nokkuð veik og því lítill þrýstingur á launahækkanir næsta leytið. Ekki er því enn hægt að kveða upp úr með hvort hillir endanlega undir lokin á samdrætti í smásöluverslun þrátt fyrir nokkra aukningu milli apríl og maí síðastliðins.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×