Viðskipti innlent

Heimaslóðirnar heilla Jón

Jón S. von Tetzchner
Jón S. von Tetzchner

Norska hugbúnaðarfyrirtækið Opera Software býst við því að auka gagnaflutninga um þrjátíu prósent á sama tíma og orkunotkun dregst saman um rúm 35 prósent. Þetta þakkar fyrirtækið flutningi á stórum hluta af gagnavinnslu sinni til gagnavers Thor Data Center, sem vígt var í Hafnarfirði fyrir rétt rúmum mánuði. Gagnaflutningurinn á að fara um sæstrengina Danice og Farice.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Opera Software, sem send var út til notenda hugbúnaðarfyrirtækisins um heim allan í gær. Opera Software hefur um árabil staðið framarlega í hönnun á netvöfrum bæði fyrir farsíma og einkatölvur. Þá hefur það búið til vafra og aðrar tæknilegar lausnir fyrir leikjatölvur á borð við Nintendo Wii.

Í tilkynningunni segir að gagnaverið sé umhverfisvænt, knúið af endurnýjanlegri orku og það fyrsta sinnar tegundar í heiminum.

Jón S. von Tetzchner, annar tveggja stofnenda Opera Software, Íslendingur í húð og hár og forstjóri fyrirtækisins fram yfir síðustu áramót, kom hingað til lands við undirritun samnings um flutning á gagnavinnslunni í maí.

Gagnageymslur Opera Software eru á sex stöðum í heiminum, í Noregi, Póllandi, Kóreu, og Kína, auk Íslands.- jab










Fleiri fréttir

Sjá meira


×