Viðskipti innlent

Metan leggur grunn að orkuöryggi

Urðað af kappil. Metangas sem eldsneyti er nú framleitt á haugum Sorpu í Álfsnesi í Reykjavík.Fréttablaðið/Vilhelm
Urðað af kappil. Metangas sem eldsneyti er nú framleitt á haugum Sorpu í Álfsnesi í Reykjavík.Fréttablaðið/Vilhelm

Hópur þingmanna fer fram á að Alþingi beini því til ríkisstjórnarinnar að hún beiti sér fyrir aukinni og markvissri metanframleiðslu og leiti samstarfs um það við sveitarfélög, einstaklinga og lögaðila. Þingmenn allra flokka standa að ályktun um þetta sem lögð hefur verið fram á Alþingi.

Samkvæmt tillögunni á ríkisstjórnin jafnframt að hafa forgöngu um að marka heildstæða stefnu um nýtingu metans og taka höndum saman við hagsmunaaðila um rannsóknir, fjármögnun og framvindu hagfelldra kosta við framleiðsluna.

„Virk og markviss aðkoma ríkisins að málaflokknum getur skipt sköpum um aukna framleiðslu á þeirri endurnýjanlegu orkuauðlind sem hér um ræðir og stuðlað að aukinni notkun samgöngutækja og vélbúnaðar í iðnaði sem knúinn er metaneldsneyti,“ segir í greinargerð með tillögunni.

„Aukin metanframleiðsla í landinu leggur grunn að orkuöryggi þjóðarinnar og sjálfbærni. Nýtingarmöguleiki á íslensku metani á þessari öld er augljós og aukin notkun metans fyrirsjáanleg í samgöngum og iðnaði.“ Bent er á að með aukinni metannotkun og framleiðslu sparist gjaldeyrir vegna minni innflutnings á umhverfisspillandi jarðefnaeldsneyti. - óká






Fleiri fréttir

Sjá meira


×