Viðskipti innlent

Kaupþingsrannsókn Breta nær til Lúx

Rannsókn Serious Fraud Office, efnahagsbrotadeildar bresku lögreglunnar, á starfsemi Kaupþings í Bretlandi hefur nú teygt anga sína til Lúxemborgar. Fulltrúar embættisins hittu sérstakan saksóknara í Amsterdam í síðustu viku. Þar voru einnig fulltrúar belgískra rannsakenda sem og heimamanna og efnahagsbrotadeildar Europol.

Ólafur Þór Hauksson, sérstakur saksóknari, segir að samstarf verði milli þessa aðila um rannsókn á bankahruninu. Jafnvel komi til greina að Bretar fái aðgang að þeim yfirheyrslum sem fram hafa farið í Kaupþingsmálinu. „Það er alveg ljóst að þessi lönd verða að hafa með sér samstarf um þetta, þetta hlykkjar sér hérna á milli. Það eru nú þegar búin að eiga sér stað ákveðin skipti á upplýsingum á báða bóga, þannig að við erum búnir að lýsa því við þá að við munum vera mjög fúsir til að eiga við þá gott samstarf."

Þegar hefur átt sér stað samstarf milli embættanna, en þegar farið var inn í Existu var það gert samtímis í löndunum tveimur.

Ólafur Þór segir að hlutverk Europol muni verða meira í rannsókninni á næstunni. Þar hugi menn að því að leggja meiri áherslu á rannsókn efnahagsbrota. Það sé því ekki ólíklegt að hrun íslensku bankanna komi inn á borð stofnunarinnar.

Rannsókn stendur enn yfir hjá embætti sérstaks saksóknara á málefnum Kaupþings og þeir Hreiðar Már Sigurðsson, Ingólfur Helgason, Magnús Guðmundsson og Steingrímur P. Kárason eru enn í farbanni. Ólafur segir ekki hægt að spá fyrir um hvenær rannsókninni lýkur. Hún sé það stór um sig.

Staða Sigurðar Einarssonar hefur ekki breyst og Ólafur Þór vill enn fá hann í yfirheyrslu. „Við útilokum ekkert í þeim efnum," segir Ólafur spurður hvort til greina komi að yfirheyra Sigurð í Bretlandi.- kóp








Fleiri fréttir

Sjá meira


×