Viðskipti innlent

Verne borgar yfir helmingi minna orkuverð en vestan hafs

Verne Global mun borga 4 sent eða um 5 kr. á kílówattstundina fyrir rafmagnið sem keypt verður til að reka gagnaver félagsins á Keflavíkurflugvelli. Þetta kemur fram í viðtali við Tate Cantrell tæknistjóra Verne Global á vefsíðunni Techworld.

Fram kemur hjá Cantrell að þetta verð sé yfir helmingi minna en félagið þyrfti að borga fyrir orkuna vestur í Bandaríkjunum þar sem algengt verð á orku til gagnavera er 10 sent á kílówattstundina. Og í Bretlandi er verðið fimmfalt hærra en á Íslandi eða 20 sent.

Til samanburðar má geta þess að íslenskir garðyrkjubændur greiða nú um 8,5 kr. á kílówattstundina í dreifbýli og 6,5 kr. í þéttbýli. Í þessum tölum er ekki tekið tillit til niðurgreiðslna á dreifingarkostnaði.

Cantrell segir að sökum þess hve raforkuverðið er hagstætt fyrir Verne Global á Íslandi geti félagið boðið komandi viðskiptavinum sínum í Bandaríkjunum þjónustu sína á 30% lægra verði en samkeppnisaðilar þar í landi. Í Bretlandi getur Verne Global boðið viðskiptavinum sínum þjónustuna á 50-60% lægra verði en þarlend gagnaver.

„Það eru veruleg tækifæri til sparnaðar hérna," segir Cantrell. „Ísland er frábær staður fyrir gagnaver."










Fleiri fréttir

Sjá meira


×