Viðskipti innlent

Koma þarf í veg fyrir markaðsmisnotkun

Vilhjálmur Bjarnason
Vilhjálmur Bjarnason

Lagaumgjörð sem í smíðum er og tekur á kauphallarstarfsemi gengur ekki nógu langt til að hún fái byggt undir traust á Kauphöllinni eftir allt sem aflaga hefur farið, að mati Vilhjálms Bjarnasonar, fjárfestis og lektors við viðskiptadeild Háskóla Íslands. Vilhjálmur er jafnframt framkvæmdastjóri Samtaka fjárfesta.

„Það þarf að byrja á því að fara í gegn um hlutafélagalögin og athuga hvað það er sem gerir hlutabréf vonlaus á markaði," segir Vilhjálmur um hvað til þurfi að koma til að hér fái hlutabréfamarkaður þrifist með góðu móti á ný. Hann segir að tryggja þurfi betur jafnræði hluthafa og koma í veg fyrir markaðsmisnotkun. „Og það þarf að hætta ofurskattlagningu á sparifé," bætir hann við.

Vilhjálmur segir að frumvarp sem nú er í meðförum Alþingis og snýr að minnihlutavernd og fleiri þáttum í lögum um hlutafélög, einkahlutafélög og um ársreikninga gangi ekki nógu langt í að verja rétt smærri hluthafa fyrirtækja. „Svo er sú staðreynd ein að hér hafi verið stunduð markaðsmisnotkun í fimm ár rannsóknarefni út af fyrir sig," segir hann og telur fásinnu að fara af stað með hlutabréfaviðskipti á ný fyrr en lokað hefur verið fyrir möguleika á slíku. „Við bætist svo að hluthafar lenda nú í veseni vegna auðlegðarskattsins. Og svo veit maður ekki hvar þessi tekjuskattur af arði á eftir að lenda. Ríkisstjórnin er að binda girðingar um það að menn kaupi nokkurn tímann."

Þá þykir Vilhjálmi ekki gæfulegt að stefna að því að skrá Haga á markað með fyrrverandi eiganda, Jóhannes Jónsson, kenndan við Bónus, í stjórnarformannssætinu. „Það skortir enn þá allan trúverðugleika og stjórnvöld hafa ekki byggt hann upp."

Annað sem Vilhjálmur bendir á er að Fjármálaeftirlitið hafi hingað til ekki talið hlutverk sitt að hafa eftirlit með brotum á hlutafélagalögum í skráðum félögum. „Skráð félög eru eftirlitslaus hvað varðar hlutafélagalög í kauphöll. Þau lög eru á einskis manns borði hvað eftirlit varðar." - óká








Fleiri fréttir

Sjá meira


×