Viðskipti innlent

Gífurlegt tap hjá Citigroup

 

Citigroup, einn stærsti banki Bandaríkjanna, skilaði gífurlegu tapi á fjórða ársfjórðungi síðasta árs. Tapið nam 7,6 milljörðum dollara eða rúmlega 940 milljörðum kr.

 

Í frétt um málið á Bloomberg segir að megin ástæða tapsins séu endurgreiðslur á opinberri aðstoð bandarískra stjórnvalda til bankans. Þær endurgreiðslur námu 20 milljörðum dollara í desember og af þeirri upphæð þurfti bankinn að skrá 8 milljarða dollara sem fyrirfram skattgreiðslur í bókhaldi sínu.

 

Tapið kom ekki algerlega á óvart. Það nam 33 sentum á hlut en hópur sérfræðinga á Bloomberg hafði spáð tapi upp á 30 sent á hlut.

 

Bandaríska fjármálaráðuneytið heldur enn á 27% hlut í Citigroup en reiknað er með að reynt verði að selja hann á þessu ári. Þá er einnig reiknað með að Citigroup verði að ná sér upp úr taprekstrinum allt þetta ár.

Rætt hefur verið um að Citigroup muni selja allt að þriðjungi af eignum sínum í náinni framtíð en þær nema nú um 600 milljörðum dollara.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×