Viðskipti innlent

Sala á nýjum fólksbílum heldur áfram að aukast

Talsverð aukning hefur orðið í sölu nýrra fólksbíla fyrstu fjóra mánuði ársins miðað við sama tímabil í fyrra. Alls seldust 400 nýir fólksbílar frá áramótum fram til aprílloka á þessu ári, en á sama tímabili í fyrra seldust 349 nýir fólksbílar. Þetta er aukning upp á 14,6% milli ára.

Í yfirliti frá Bílgreinasambandinu segir að mest var aukningin í nýliðnum marsmánuði en þá seldust alls 156 nýir fólksbílar á móti 69 í sama mánuði árið á undan, sem gerir viðsnúning upp á liðlega 126%. Í apríl var aukningin um 18%.

Þessi aukning er merki um að tekið sé að lifna yfir bílamarkaðnum sem hefur verið afar daufur síðustu tvö ár. Á þeim tíma hefur meðalaldur bílaflota Íslendinga aukist hratt og er hann nú með því hæsta sem gerist í nágrannalöndum okkar. Meðalaldur íslenska bílaflotans er um 10,2 ár á meðan meðalaldur bílaflotans í Evrópusambandinu er 8,5 ár.

Á síðasta ári seldust um það bil 2000 fólksbílar hér á landi en gert er ráð fyrir að um 10.000 til 15.000 nýir bílar þurfi að fara á götuna árlega til að eðlileg endurnýjun eigi sér stað í bílaflota landsmanna.

„Það eru góðar fréttir að sala nýrra bíla sé að taka við sér á ný. Ekki bara fyrir okkur sem störfum í bílgreininni, heldur líka alla þjóðina. Fyrir það fyrsta er þetta vísbending um að efnahagslífið sé að taka við sér eftir mögur ár í kjölfar bankahrunsins. Um leið skiptir eðlileg endurnýjun í bílaflota landsmanna miklu máli, vegna þess að því eldri sem bílaflotinn er, þeim mun meir fara landsmenn á mis við tækninýjungar nýrra bíla sem auka öryggi, minnka eldsneytiseyðslu og draga úr mengun," segir Özur Lárusson, framkvæmdastjóri Bílgreinasambandsins.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×