Innlent

Íslandsbanki skilar hagnaði

Þorbjörn Þórðarson skrifar

Íslandsbanki, sem er nánast að fullu í eigu erlendra kröfuhafa Glitnis, heldur áfram að skila hagnaði, en bankinn hagnaðist um 3,6 milljarða króna á fyrsta ársfjórðungi þessa árs. Bankastjórinn segir bankann vel í stakk búinn að takast á við óvissu vegna dóma Hæstaréttar í bílalánsmálunum sökum sterkrar eiginfjárstöðu.

Á síðasta ári í heild sinni skilaði Íslandsbanki tuttugu og fjögurra milljarða króna hagnaði og eiginfjárhlutfallið var rúmlega nítján prósent, sem er þremur prósentustigum yfir því sextán prósenta lágmarki sem Fjármálaeftirlitið setti bankanum.

Bankinn birti í dag árshlutauppgjör vegna fyrsta ársfjórðungs þessa árs. Bankinn skilaði 3,6 milljarða króna hagnaði og er tekjuskattur vegna tímabilsins áætlaður 807 milljónir króna.

Athygli vekur að Birna Einarsdóttir, bankastjóri Íslandsbanka, segir bankann vel í stakk búinn að mæta þeirri óvissu sem skapast hefur um uppgjör gengistryggðra lána í kjölfar dóma Hæstaréttar í bílalánsmálunum. Í tilkynningu sem bankinn sendi frá sér í dag vegna hinnar jákvæðu afkomu segir Birna að skýringin sé sterk eiginfjárstaða, en eiginfjárhlutfall bankans er nú tæplega 21 prósent, eða fimm prósentustigum yfir því lágmarki sem Fjármálaeftirlitið setti bankanum.

Íslandsbanki er að langstærstum hluta í eigu erlendra kröfuhafa Glitnis, en félagið ISB Holding, dótturfélag þrotabús Glitnis, á 95 prósenta hlut í bankanum. Eignarhlutinn er í raun til sölu því skilanefnd Glitnis hefur ráðið svissneska bankann UBS sem ráðgjafa við söluna og er stefnt að því að ljúka söluferlinu innan fimm ára.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×