Viðskipti innlent

Greining spáir slökum hagvexti á Íslandi næstu árin

Í nýrri hagspá greiningar Arion banka fyrir tímabilið 2010 til 2013 kemur m.a. fram að langan tíma taki fyrir Íslendinga að vinna sig úr kreppunni. Vöxtur landsframleiðslunnar verður langt undir langtímahagvexti á næstu árum.

Fjallað var um spánna á morgunverðarfundi greiningarinnar fyrir helgina. Helstu atriði hennar eru að eftir nokkuð snöggan viðsnúning á síðari hluta ársins 2009 hefur einkaneyslu slegið aftur niður á fyrri helmingi ársins 2010. Allar vísbendingar ganga þó í þá átt að síðari hluti 2010 verði betri og að landsframleiðslutölur fari að sýna viðsnúning á ný.

Áframhaldandi slaki verður þó í efnahagslífinu á næstu árum, landsframleiðslan mun samt ekki skreppa meira saman, en vöxtur hennar verður langt undir langtímahagvexti. Gert er ráð fyrir Búðarhálsvirkjun en ekki er gert ráð fyrir öðrum orkutengdum framkvæmdum á spátímabilinu.

Litlar fjárfestingar eru framundan. Ruðningsáhrif myndast vegna hallareksturs ríkissjóðs þar sem fjárfestar leita í öruggt skjól frekar en að fara út í áhættumeiri fjárfestingar á vegum einkafyrirtækja.

Þá hlýtur öll sú óvissa sem ríkir um skattastefnu ríkisins, íhlutun stjórnvalda og skuldastöðu fyrirtækja að draga úr fjárfestingahvata fyrirtækja.

Verðbólguhorfur eru góðar og allar líkur eru á því að verðbólgan haldist undir verðbólgumarkmiði Seðlabankans út spátímabilið.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×