Viðskipti innlent

Saxo Bank: Íslendingum ber að greiða Icesave

Lars Seier Christensen bankastjóri Saxo Bank segir að Íslendingum beri að greiða Icesave skuldir sínar og það sé engin leið fyrir þjóðina framhjá því.

„Ég skil vel að Íslendingar séu æfareiðir yfir því að hafa reikning upp á 2 milljónir króna á mann hangandi yfir höfðum sínum. En þannig er bara raunveruleikinn," segir Christensen í grein sem hann hefur skrifað í Berlingske Business.

Christensen segir að fólk verði að standa við skuldbindingar sínar ef það ætli sér að vera hluti af samfélaginu. Ef því líkar ekki sú staða er hægt að velja að flytja af landi brott. „Það er að sjálfsögðu eðlileg ákvörðun ef stjórnvöld hegða sér á óábyrgan hátt," segir Christensen.

Saxo Bank er velkunnur aðstæðum á Íslandi en aðalgreinandi bankans, David Karsböl, sagði í febrúar 2008 að möguleikinn á gjaldþroti Kaupþings væri meir en nokkurn tíman áður. Fyrir þetta fékk Saxo Bank miklar ákúrur frá þáverandi stjórnarformanni Kaupþings, Sigurði Einarssyni, sem sagði Saxo Bank vera algerlega ábyrgðarlausan í tali sínu. Þessi orð Karsböl hefðu ekkert með raunveruleikann að gera. Annað kom svo á daginn.

Lars Seier Christensen telur að Íslandi muni standa frammi fyrir óleysanlegum vandamálum ef þjóðin segir sig frá ábyrgð sinni á Icesave skuldinni. Hann vonar þó að lánadrottnarnir, Bretland og Holland, muni gefa eitthvað eftir þegar samið verður á ný.

Christensen lýkur grein sinni á eftirfarandi orðum. „Íslendingar bæði geta og munu reisa sig við að nýju því þeir eru sterk og útsjónarsöm þjóð sem ekki hræðist erfiða vinnu. Ég óska ykkur allar hamingju og heppni."










Fleiri fréttir

Sjá meira


×