Viðskipti innlent

Rekstur Akureyrar jákvæður um 146 milljónir á næsta ári

Rekstarafkoma A- og B hluta Akureyrarbæjar fyrir næsta ár er áætluð jákvæð um 146,3 milljónir króna eftir fjármagnsliði og tekjuskatt. Fjárhagsáætlun Akureyrarbæjar fyrir árið 2011 var lögð fram í bæjarstjórn Akureyrar í gær.

Í tilkynningu segir að samkvæmt yfirliti um sjóðstreymi samstæðunnar mun veltufé frá rekstri nema 1.810,3 milljónum kr. og handbært fé frá rekstri 1.794,3 milljónum kr.

Heildarlaunagreiðslur ásamt launatengdum gjöldum hjá samstæðunni eru áætlaðar 8.148 milljónir kr. Laun og launatengd gjöld sveitarfélagsins, í hlutfalli við rekstrartekjur þess, eru áætluð 53,19%. Annar rekstrarkostnaður er áætlaður 30,4% af rekstrartekjum.

Áætlað er að eignir sveitarfélagsins í efnahagsreikningi 31.12. 2011 verði bókfærðar á 36.4 milljarða kr., þar af eru veltufjármunir 3.2 milljarðar kr. Skuldir sveitarfélagsins með lífeyrisskuldbindingum nemi samkvæmt efnahagsreikningi 22.6 milljörðum kr., þar af eru skammtímaskuldir 3.5 milljarðar kr.

Til A-hluta telst starfsemi sem að hluta eða öllu leyti er fjármögnuð með skatttekjum. Um er að ræða Aðalsjóð, Fasteignir Akureyrarbæjar, Framkvæmdamiðstöð og Eignasjóð gatna. Til B-hluta teljast fjárhagslega sjálfstæð fyrirtæki sem að hálfu eða meirihluta eru í eigu sveitarfélagsins en rekstur þeirra er að stofni til fjármagnaður með þjónustutekjum.

Fyrirtækin eru: Félagslegar íbúðir, Fráveita Akureyrabæjar, Strætisvagnar Akureyrabæjar, Öldrunarheimili Akureyrabæjar, Framkvæmdasjóður Akureyrarbæjar, Bifreiðastæðasjóður Akureyrabæjar, Hafnarsamlag Norðurlands, Norðurorka hf., Heilsugæslustöðin á Akureyri, Byggingasjóður Náttúrufræðistofnunar og Gjafasjóður Öldrunarheimila Akureyrarbæjar.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×