Viðskipti innlent

Lækkað lánshæfi stöðvar frekari framkvæmdir hjá LV og OR

Þorbjörn Þórðarson. skrifar

Lækkað lánshæfi ríkissjóðs útilokar nýjar framkvæmdir bæði hjá Landsvirkjun og Orkuveitu Reykjavíkur, en bein áhrif lækkunar á rekstur fyrirtækjanna eru óljós fyrst um sinn.

Sem kunnugt er lækkaði lánshæfisfyrirtækið Fitch Ratings lánshæfiseinkunn ríkissjóðs niður í ruslflokk í kjölfar synjunar forsetans á Icesave lögunum og búist er við að önnur lánshæfisfyrirtæki geri slíkt hið sama. Paul Rawkins, framkvæmdastjóri hjá Fitch, sagði í samtali við fréttastofu í gær að ákvörðun forsetans gæti leitt til einangrunar landsins og heft aðgengi ríkisfyrirtækja að fjármögnun erlendis.

Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar, segir að lækkun lánshæfiseinkunnar muni án nýrra framkvæmda ekki hafa nein áhrif á rekstur Landsvirkjunar fyrst um sinn. Hann segir að áhrif lækkaðrar lánshæfiseinkunnar, vegna nýrra framkvæmda sem hugsanlega verði ráðist í, muni koma fram á næstu vikum.

Hörður segir að ekki séu gjaldfellingarákvæði í lánasamningum Landsvirkjunar. Það þýðir að lánveitendur geta ekki gjaldfellt lán til fyrirtækisins þótt lánshæfiseinkunn ríkissjóðs sé komin niður í rusl.

Hjörleifur B. Kvaran, forstjóri Orkuveitu Reykjavíkur, segir að lækkuð lánshæfiseinkunn geti haft þær afleiðingar að nýjar framkvæmdir á vegum fyrirtækisins frestist. „Ef þetta (lánshæfi í ruslflokki innsk. blaðam) verður til langs tíma mun þetta örugglega hafa áhrif á möguleika okkar að leita lána. (...) Næstu virkjun, sem við ætlum að byrja á á næsta ári, eigum við líka eftir að fjármagna að hluta til, en það er Hverahlíðarvirkjun. Við ætluðum að fara að leita eftir lánsfé í þessa framkvæmd með vorinu, en við verðum að bíða og sjá hvað gerist hér á næstu vikum áður en við reynum það," segir Hjörleifur.

Hjörleifur segir að þetta hafi ekki bein áhrif á þau lán sem Orkuveitan er með, enda séu ekki heimildir til gjaldfellingar í lánasamningum fyrirtækisins ef lánshæfið fer niður í ruslflokk.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×