Viðskipti innlent

Framleiða hugmyndir fyrir heiminn

Þeir Gotti Bernhöft og Sigurður Kaldal hafa gert hugmyndir að veruleika í sex ár.
Þeir Gotti Bernhöft og Sigurður Kaldal hafa gert hugmyndir að veruleika í sex ár. MYND:GVA
„Við höfum haft nóg fyrir stafni öll þessi ár að framleiða hugmyndir fyrir aðra," segir Sigurður Kaldal, annar stofnenda fyrirtækisins Koma. Sigurður og Gotti Bernhöft stofnuðu fyrirtækið fyrir sex árum og hafa þeir frá upphafi unnið með hönnuðum sem vilja raungera hugmyndir auk þess að sérmerkja vörur fyrir fyrirtæki. Fastir starfsmenn eru þrír.

Segja má að Koma brúi bilið á milli hugmynda og framleiðslu. „Stundum hefur hingað komið fólk með hugmyndir og við höfum hjálpað því að fjöldaframleiða hlutinn fyrir heiminn," segir Sigurður en frá Koma hefur komið fjöldi þekktra hluta í daglegu lífi, svo sem Blaðberinn svokallaði auk vinsælla borðspila.

Á meðal þekktari afurða Koma um þessar mundir er segulsnúruhaldarinn Magnet, sem kom á markað í kringum síðustu jól. Þróunarvinna tók eitt ár og sá Koma um framleiðsluna á skrifstofu fyrirtækisins í Kína. Þar er jafnframt einn starfsmaður sem ræður aukafólk til stærri verka. Þar er líka lager fyrirtækisins og hefur snúruhaldaranum verið dreift þaðan til rúmlega tuttugu landa. - jab






Fleiri fréttir

Sjá meira


×