Viðskipti innlent

FME gerir athugasemdir við starfsemi Lífeyrissjóðs Vestfirðinga

Fjármálaeftirlitið (FME) hefur gert margvíslegar athugasemdir við starfsemi Lífeyrissjóðs Vestfirðinga. Þar á meðal eru tvær alvarlegar athugsemdir.

Fjallað er um málið á vefsíðu FME. Þar segir að framkvæmd var athugun á starfsemi Lífeyrissjóðs Vestfirðinga með heimsókn og gagnaöflun dagana 23.-24. febrúar 2010. Í kjölfar athugunarinnar rituðu fulltrúar Fjármálaeftirlitsins skýrslu þar sem fram komu athugasemdir eftirlitsins og kröfur um úrbætur er skyldi vera lokið innan nánar tiltekinna tímamarka.

Voru drög að skýrslunni afhent sjóðnum þann 29. mars 2010 og honum gefið tækifæri til að koma sjónarmiðum sjóðsins og frekari upplýsingum á framfæri. Í endanlegri útgáfu skýrslunnar þann 8. júní 2010, var tekið tillit til þeirra athugasemda eftir því sem tilefni þótti til.

Meðal þess sem kemur fram er að gerð var athugasemd við að framkvæmdastjóri uppfyllir ekki skilyrði laga um að hafa staðist próf í verðbréfaviðskiptum. Skilyrðið þarf að uppfylla frá og með 1. janúar 2011 ef framkvæmdastjóri hyggst áfram sinna eignastýringu fyrir sjóðinn.

Gerð var athugasemd við að sjóðurinn hefði ekki haldið skrá um tilkynningaskyld viðskipti starfsmanna með fjármálagerninga eins og ber að gera samkvæmt gildandi verklagsreglum sjóðsins um verðbréfaviðskipti. Þá var ekki framfylgt öðrum ákvæðum er varða tilkynningaskyldu þeirra starfsmanna, sem koma að ákvörðunum eða framkvæmd viðskipta sjóðsins með fjármálagerninga, um öll viðskipti fyrir eigin reikning og verðbréfaeign þeirra þegar þeir tóku við starfi.

Gerð var athugasemd við að engir verkferlar væru til staðar hjá sjóðnum varðandi fjárfestingaferli, ákvarðanir og framkvæmd þess.

Gerðar voru alvarlegar athugasemdir við útfyllingu á skýrslum um sundurliðun fjárfestinga sjóðsins sem sendar eru Fjármálaeftirlitinu á þriggja mánaða fresti. Skýrslurnar voru illa unnar og verklagi við útfyllingu skýrslnanna verulega ábótavant.

Gerð var athugasemd við það hversu lágt hlutfall ógreiddra iðgjaldakrafna væri í lögfræðilegri innheimtu þrátt fyrir aldur þeirra. Fjármálaeftirlitið fór fram á að sjóðurinn kæmi viðeigandi kröfum í formlegt innheimtuferli í samræmi við reglugerð um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða. Þá voru engar verklagsreglur fyrirliggjandi hjá sjóðnum um innheimtu iðgjalda.

Gerð var athugasemd við að ekki væri til staðar heildstæð áhættustýring hjá sjóðnum. Þá voru engir skjalfestir verkferlar, verklýsingar, innri eftirlitsferlalýsingar og lítið um innri reglur hjá sjóðnum. Farið var fram á að sjóðurinn hæfi vinnu við að móta innra eftirlit hjá sjóðnum og áhættustýringu.

Gerð var alvarleg athugasemd við skil á gögnum frá sjóðnum til Fjármálaeftirlitsins, en gögn hafa nokkuð oft borist eftir skilafresti.

Lífeyrissjóður Vestfirðinga hefur nú þegar brugðist við flestum athugasemdum Fjármálaeftirlitsins með viðeigandi úrbótum. Önnur atriði eru enn í vinnslu og hefur Fjármálaeftirlitið lagt áherslu á að þeim verði komið í viðunandi horf innan skamms tíma, að því er segir á vefsíðunni.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×