Viðskipti innlent

Milljónasta áltonnið framleitt á Reyðarfirði

Milljónasta tonnið var framleitt í álveri Alcoa Fjarðaáls í Reyðarfirði í vikunni, en framleiðsla hófst í álverinu í apríl 2007. Verðmæti milljón tonna af áli eru um 265 milljarðar króna miðað við álverð á markaði og gengi dollarans nú, en verðmæti útfluttra afurða frá Fjarðaáli frá upphafi nemur um 260 milljörðum króna.

Tómas Már Sigurðsson, forstjóri Alcoa á Íslandi, segir þetta ánægjulegan áfanga. „Við hjá Fjarðaáli erum afar stolt af okkar framleiðslu. Upphaflega var talið að framleiðslugeta álversins yrði um 346.000 tonn á ári, en framleiðslan hefur reynst meiri og nýtt starfsleyfi gerir ráð fyrir að hún verði aukin í allt að 360.000 tonn. Verðmæti útflutnings okkar á síðasta ári var um 75 milljarðar króna og um 40% af því varð eftir á Íslandi," segir hann.

Samtals starfa um 800 manns á álverssvæðinu í Reyðarfirði.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Alcoa.

Tómas Már segir að hlutfall virðisaukandi vöru hjá Fjarðaáli fari vaxandi sem eykur mjög verðmæti útflutningstekna. Einnig hefur framleiðsla í kerskála álversins í Reyðarfirði verið aukin með bættri straumnýtingu.

Milljónasta áltonnið, var framleitt í víravél álversins og notað í 9,5 mm álvír í rafmagnskapla. Vírarnir eru nú í gámi um borð í skipi á leið til dreifingar í Mið-Evrópu. Álver Fjarðaáls framleiðir hreint gæðaál, álvíra og álblöndur sem m.a. eru notaðar í bílaiðnaði. Stærstur hluti útflutningsvara Fjarðaáls fer til meginlands Evrópu.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×