Viðskipti innlent

Óvíst hvort efnahagssamdráttur vinni á verðbólgunni

Greining MP Banka segir að alls óvíst sé að langvinnur efnahagssamdráttur á Íslandi megni að vinna á verðbólgunni. Þetta kemur fram í Markaðsvísi greiningarinnar undir fyrirsögninni „Verðbólgan er lífsseig".

„Verðbólgan í maí er 7,5% en vísitala neysluverðs hækkaði um 0,41% frá því í apríl samkvæmt mælingu Hagstofunnar. Hækkunin er töluvert meiri en við spáðum. Kostnaður vegna eigin húsnæðis jókst meira en við áttum von á og auk þess hækkuðu innlendir þjónustuliðir enn meira en við reiknuðum með," segir í Markaðsvísinum.

„Verðhækkunin nú er umfram væntingar og eftir ládeyðu á skuldabréfamarkaði undanfarna daga glæddust viðskipti í morgun. Viðskipti með íbúðabréf námu tæpum 4 mö.kr og hafði ávöxtunarkrafa þeirra lækkað um 7 til 16 punkta. Ávöxtunarkrafa lengstu flokka ríkisbréfa hækkaði um 2 til 6 punkta.

Þrátt fyrir verulegan efnahagssamdrátt er verðbólga enn langt yfir verðbólgumarkmiði. Verðbólgan stafar nú fyrst og fremst af kostnaðarhækkunum.

Þegar líður á árið má búast við að launahækkanir leggist á sveif með lágu gengi krónunnar, háum fjármagnskostnaði fyrirtækja og hækkandi sköttum og valdi frekari þrýstingi á verðlag. Því er alls óvíst að langvinnur efnahagssamdráttur megni að vinna á verðbólgunni að þessu sinni. Við reiknum með því að verðbólgan yfir árið verði um 4%."








Fleiri fréttir

Sjá meira


×