Viðskipti innlent

Tveir í Peningastefnunefnd vildu meiri vaxtalækkun

Eins og áður voru nefndarmenn sammála um að héldist gengi krónunnar stöðugt eða styrktist og verðbólga hjaðnaði eins og spáð var, ættu forsendur fyrir því að draga smám saman úr peningalegu aðhaldi að vera áfram til staðar.
Eins og áður voru nefndarmenn sammála um að héldist gengi krónunnar stöðugt eða styrktist og verðbólga hjaðnaði eins og spáð var, ættu forsendur fyrir því að draga smám saman úr peningalegu aðhaldi að vera áfram til staðar.
Tveir af fimm í Peningastefnunefnd Seðlabankans vildu lækka stýrivexti meira en ákveðið var á fundi nefndarinnar fyrr í mánuðinum. Annar þeirra vildi að vextirnir lækkuðu um 0,75 prósentustig og hinn vildi lækka þá um eitt prósentustig. Sem kunnugt er af fréttum var ákveðið að lækka vextina um 0,5 prósentustig.

Þetta kemur fram í fundargerð nefndarinnar sem birt hefur verið á vefsíðu Seðlabankans. Í fundargerðinni segir að nefndarmenn ræddu þann möguleika að lækka vexti bankans um 0,5 til 1,5 prósentur. Eins og áður voru nefndarmenn sammála um að spá um hjöðnun verðbólgu og slaki í þjóðarbúskapnum gæfi tilefni til vaxtalækkunar.

Ennfremur hefði annarri endurskoðun efnahagsáætlunar íslenskra stjórnvalda og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins verið lokið frá því að síðasti fundur peningastefnunefndar var haldinn. Áhyggjur af getu ríkissjóðs til þess að standa í skilum vegna lána sem falla í gjalddaga árin 2011 og 2012 ættu því að vera úr sögunni og ólíklegra væri nú en áður að frekari töf á lausn Icesave-deilunnar hefði áhrif á lánshæfismat Íslands.

Hins vegar töldu nefndarmenn að áhættusamt væri að leysa gjaldeyrishöftin, sem hingað til hafa skýlt krónunni fyrir áhrifum tafa á lausn deilunnar, fyrr en frekari fjármögnun í tengslum við efnahagsáætlunina er í höfn. Því mundi lausn gjaldeyrishafta líklega tefjast þar til að samkomulag næst eða þriðju endurskoðun áætlunarinnar er lokið.

Með hliðsjón af umræðunni og þeim skoðunum sem höfðu verið látnar í ljós lagði seðlabankastjóri til að vextir bankans yrðu lækkaðir um 0,5 prósentur. Þetta fæli í sér að vextir á viðskiptareikningum innlánsstofnana og hámarksvextir innstæðubréfa lækkuðu í 7,0% og 8,25% hvorir um sig, vextir á lánum gegn veði til sjö daga í 8,5% og daglánavextir í 10,0%. Enda þótt tveir nefndarmenn hefðu heldur kosið að taka stærra skref að þessu sinni voru þeir báðir þeirrar skoðunar að munurinn væri það lítill að þeir gætu fallist á tillögu seðlabankastjóra.

Af þeim tveimur nefndarmönnum sem vildu taka stærri skref lagði annar til 0,75 prósentna vaxtalækkun og vísaði í jákvæðari horfur eftir að annarri endurskoðun efnahagsáætlunar íslenskra stjórnvalda og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins lauk, þar sem fjármögnun í tengslum við endurskoðunina væri tryggð, þótt hann héldi því fram að markaðirnir hefðu ekki metið hana að fullu.

Þegar fullt tillit hefði verið tekið til hennar yrði áhættuaðlagaður vaxtamunur gagnvart helstu gjaldmiðlum meiri en þörf væri á til að styðja við gengisstöðugleika. Í ljósi þess að aðhald peningastefnunnar væri talsvert meira en verðbólguhorfur og innlendar efnahagsaðstæður gæfu tilefni til, væri hægt að nýta það svigrúm til að lækka vexti heldur meira.

Hinn nefndarmaðurinn lagði til 1,0 prósentu lækkun og vísaði til þess að þjóðarbúskapurinn sem og endurskipulagning innlendra efnahagsreikninga kölluðu á meiri vaxtalækkun. Með því að reikna raunvexti sem mismun nafnvaxta og liðinnar verðbólgu væru samdráttaráhrifin af aðhaldi peningastefnunnar ennfremur vanmetin, þar sem mæld verðbólga endurspeglaði fyrst og fremst verðbreytingar innfluttrar vöru, sem væru að verða hlutfallslega dýrari. Þessi nefndarmaður hélt því einnig fram að núverandi skammtímavaxtamunur væri óþarflega mikill.

Eins og áður voru nefndarmenn sammála um að héldist gengi krónunnar stöðugt eða styrktist og verðbólga hjaðnaði eins og spáð var, ættu forsendur fyrir því að draga smám saman úr peningalegu aðhaldi að vera áfram til staðar. Nefndarmenn bentu eigi að síður á að þótt óvissan um aðgengi Íslands að alþjóðlegum fjármálamörkuðum í framtíðinni væri minni en fyrir aðra endurskoðun efnahagsáætlunarinnar, ríkti enn nokkur óvissa sem takmarka mundi svigrúm peningastefnunefndarinnar.

Ennfremur er nefndin reiðubúin til að breyta aðhaldi peningastefnunnar eins og nauðsynlegt er með hliðsjón af því tímabundna markmiði hennar að stuðla að gengisstöðugleika og í því skyni að tryggja að verðbólga verði nálægt markmiði til lengri tíma litið.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×