Erlent

Hraðinn á útboði vegna brunareitsins gagnrýndur

Höskuldur Kári Schram skrifar
Innri endurskoðun Reykjavíkurborgar gagnrýnir hraðann á útboði vegna framkvæmda á brunareitnum í miðbæ Reykjavíkur. Málið var sent innri endurskoðanda eftir að upp komu ásakanir um spillingu og sérhagsmunagæslu Framsóknarmanna.

Útboð vegna uppbyggingar á brunareitnum á horni Lækjargötu og Austurstrætis fór fram í septembermánuði síðastliðnum.

Upphaflega stóð til að hafa lokað útboð en við það var hætt og verkið sett í opið útboð.

Verktakafyrirtækið Fonsi átti lægsta tilboðið en verktakafyrirtækið Eykt, sem átti nægst lægsta tilboðið, fékk hins vegar verkið.

Framkvæmdastjóri Fonsa gagnrýndi framkvæmd útboðsins og sakaði framsóknarmenn í innkauparáði borgarinnar um spillingu og sóðaskap.

Í kjölfar þessarar gagnrýni var ákveðið að láta innri endurskoðun borgarinnar fara yfir framkvæmd útboðsins. Þeirri vinnu lauk 21. desember síðastliðinn.

Í skýrslu innri endurskoðunar til innkauparáðs er það talið gagnrýnisvert hversu hratt átti að ganga frá útboðinu en öðru leyti staðfestir skýrslan þá ákvörðun innkauparáðs að samþykkja tilboð Eyktar.

Hallur Magnússon, fulltrúi framsóknarmanna í ráðinu, segir að skýrslan sanni að ásakanir um spillingu hafi verið úr lausu lofti gripnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×