Í gær var tilkynnt um valið á liði ársins í NBA-deildinni í körfuknattleik. Leikmaður ársins, LeBron James, og varnarmaður ársins, Dwight Howard, eru að sjálfsögðu í liðinu.
Aðrir í liði ársins eru Kobe Bryant, Kevin Durant og Dwyane Wade.
James er í liðinu þriðja árið í röð og fjórða sinn í heildina. Howard er einnig valinn í liðið þriðja árið í röð.
Kobe Bryant er aftur á móti í liðinu fimmta árið í röð en hann hefur alls átta sinnum verið valinn í lið ársins. Durant er í liðinu í fyrsta skipti en Wade er þarna annað árið í röð.
B-lið ársins er síðan skipað þeim Steve Nash, Deron Williams, Carmelo Anthony, Dirk Nowitzki og Amar´e Stoudemire.
Í C-liðinu eru aftur á móti þeir Joe Johnson, Brandon Roy, Tim Duncan, Pau Gasol og Andrew Bogut.
Það eru 122 íþróttafréttamenn í Bandaríkjunum og Kanada sem velja í liðið.