Viðskipti innlent

Lækkun lánshæfiseinkunnar S&P mun alvarlegri en Fitch

Lækki Standard & Poors (S&P) lánshæfiseinkunn Íslands niður úr fjárfestingarflokki eru það töluvert alvarlegri tíðindi en lækkun á einkunn Fitch Ratings, þar sem fyrrnefnda fyrirtækið metur ekki einungis lánshæfi ríkissjóðs heldur einnig lánshæfi Landsvirkjunar og Íbúðalánasjóðs.

Þetta kemur fram í Morgunkorni greiningar Íslandsbanka þar sem fjallað er um tilkynninguna sem barst frá S&P í gærkvöldi og birt var á heimasíðu Seðlabankans.

Í Morgunkorninu segir að í tilkynningu S&P segi að það að lánshæfismat ríkissjóðs hafi verið sett á athugunarlista gefi til kynna að líkur eru á að lánshæfismat verði lækkað ef stjórnmálaleg óvissa fer vaxandi og feli í sér að áfram reyni á greiðslugetu gagnvart útlöndum í kjölfar ákvörðunar forsetans.

Líkt og Fitch vísar S&P til þeirrar óvissu sem er um greiðslur frá AGS og Norðurlöndunum sem eiga að styrkja gjaldeyrisvarasjóð Seðlabankans sem nauðsynlegt sé til þess að mögulegt verði með tímanum að losa um gjaldeyrishöft. Telur fyrirtækið ólíklegt að Icesave-málið verði leyst á næstunni, hvort sem stjórnvöld velja að vísa löggjöfinni í þjóðaratkvæðigreiðslu eða að draga hana til baka.

S&P reiknar með að komast að niðurstöðu um lánshæfismatið í þessum mánuði þegar frekari upplýsingar liggja fyrir um vilja stjórnvalda til að grípa til aðgerða sem gætu endurvakið tiltrú fjárfesta og aukið aðgengi hins opinbera að erlendu lánsfé.

Því mun fyrirtækið væntanlega taka ákvörðun sína áður en úrslit þjóðaratkvæðagreiðslu liggja fyrir. Í lokin segir S&P að það gæti lækkað einkunnir um eitt til tvö þrep ef málið verði áfram í pólitískum ógöngum eða ef það metur það sem svo að þróun mála hafi haft áhrif á aðgang ríkissjóðs að erlendu lánsfé.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×