Viðskipti innlent

Gallup: Neytendur svartsýnni en fyrir mánuði síðan

Neytendur eru aðeins svartsýnni nú en fyrir mánuði síðan ef marka má Væntingavísitölu Gallup sem birt var nú í morgun. Þannig lækkaði vísitalan lítillega milli ágúst og september, eða úr 69,9 stigum í 67,7 stig, og er það í fyrsta sinn sem hún lækkar milli mánaða síðan í mars síðastliðnum.

Greining Íslandsbanka fjallar um málið í Morgunkorni sínu. Þar segir að þrátt fyrir þessa lækkun er þetta næsthæsta gildi hennar frá því fyrir hrun og mun hærra en á sama tíma fyrir ári þegar vísitalan stóð í 33,5 stigum.

Eins og kunnugt er mælir vístalan væntingar neytenda til efnahags- og atvinnulífsins og þegar vísitalan er undir 100 stigum eru fleiri neytendur svartsýnir en bjartsýnir. Frá bankahruninu hefur vísitalan mælst að meðaltali rúm 41 stig og er því augljóslega mun bjartara yfir landanum nú en undanfarin misseri þrátt fyrir smá bakslag í vísitölunni nú í september.

Bjartsýni neytenda varðandi framtíðina fer nú dvínandi eftir að hafa aukist samfellt undanfarna 5 mánuði. Væntingar neytenda til ástandsins eftir 6 mánuði lækka nú um 4,5 stig, eða úr 105,8 stigum í 101,3 stig. Virðist því eitthvað hafa dregið úr bjartsýni neytenda um framtíðina sem kemur í raun ekki á óvart enda er enn gríðarleg óvissa um mörg mikilvæg málefni hér á landi sem aftur hefur áhrif á efnahagslegar horfur fyrir Ísland.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×