Viðskipti innlent

Aðkeypt þjónusta og ráðgjöf kostar ríkið yfir milljarð á ári

Aðkeypt þjónusta, ráðgjöf og sérverkefni á vegum ráðuneyta hefur kostað yfir milljarð á ári að jafnaði undanfarin þrjú ár. Frá maí árið 2007 til maí í ár nema heildargreiðslur fyrir þessa þjónustu og ráðgjöf samtals 3,4 milljörðum kr.

Þetta kemur fram í svari forsætisráðherra við fyrirspurn Óla Björns Kárasonar þingmanns Sjálfstæðisflokksins á Alþingi.

Í yfirliti um greiðslur einstakra ráðuneyti á fyrrgreindu tímabili kemur í ljós að menntamálaráðuneytið hefur greitt mest fyrir „aðkeypta þjónustu, ráðgjöf og sérverkefni" á þessu tímabili eða rúmlega 938 milljónir kr. Lætur nærri að ráðuneytið hafi greitt um milljón kr. á dag í þennan málaflokk ef frá eru talin jól og páskar.

Næst á eftir menntamálaráðuneytinu kemur fjármálaráðuneytið með greiðslur upp á tæpar 600 milljónir kr. og í þriðja sæti er heilbrigðisráðuneytið með greiðslur upp á rúmar 567 milljónir kr. Forsætisráðuneytið hefur greitt tæpar 535 milljónir kr.

Umhverfisráðuneytið hefur eytt langminnstum fjármunum í aðkeypta aðstoð eða aðeins tæplega 28 milljónum kr. á tímabilinu. Iðnaðarráðuneytið hefur einnig sparað sér þessa þjónustu en það hefur greitt tæplega 39 milljónir kr. á þremur árum.














Fleiri fréttir

Sjá meira


×