Viðskipti innlent

Glitnir styrkti flokka og félög en ekki einstaklinga

„Þau gögn sem skilanefndin hefur farið yfir gefa ekki til kynna að Glitnir banki hafi styrkt einstaka stjórnmálamenn heldur hafi styrkjum sem tengjast stjórnmálum verið beint til stjórnmálaflokka og stjórnmálafélaga. Virðist þetta jafnframt vera í samræmi við þá styrktarstefnu sem bankinn setti sér sínum tíma."

Þetta kemur fram í yfirlýsingu sem skilanefnd Glitnis hefur sent frá sér vegna upplýsinga sem birtast í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis um að gögn hafi borist seint frá Glitni og að þau gögn hafi verið verr flokkuð en frá hinum bönkunum.

Skilanefnd Glitnis vill taka fram eftirfarandi:

„Skilanefnd Glitnis var í sambandi við rannsóknarnefndina skömmu eftir stofnun hennar og bauð fram alla aðstoð á fundi með nefndarmönnum. Í september 2009 sendi skilanefnd upplýsingar úr bókhaldi Glitnis til nefndarinnar um almennan rekstrarkostnað bankans á árunum 2004 til 2008. Skömmu síðar óskaði rannsóknarnefndin eftir frekari sundurliðunum frá Glitni og gaf fyrirmæli um það hvernig sundurliðuninni skyldi háttað.

Ekki reyndist unnt að sundurgreina kostnaðinn vélrænt og var því brugðið á það ráð að handvinna þessar upplýsingar fyrir rannsóknarnefndina. Þeirri vinnu lauk ekki fyrr en 10. febrúar 2010 og móttók nefndin upplýsingarnar daginn eftir. Um er að ræða sundurgreiningu á tilgreindum kostnaði á árunum 2004 til og með 2008 og nema fjárhæðir á hverju ári frá 700 milljónum og upp í nokkra milljarða króna. Rétt er að ítreka að rannsóknarnefndin hefur allar þessar upplýsingar undir höndum flokkaðar samkvæmt þeirra ósk.

Í framhaldi af fyrirspurn um styrkveitingar Glitnis til einstakra stjórnmálamanna vill skilanefnd Glitnis taka fram eftirfarandi:

Frá því að fyrirspurn barst í gær um styrkveitingar Glitnis til einstakra stjórnmálamanna hafa starfsmenn farið yfir kostnaðarliðinn styrkveitingar á árunum 2004 til 2008 og kannað hvort einstakir stjórnmálamenn, stuðningsmannafélög þeirra eða fyrirtæki stjórnmálamanna hafi fengið styrki frá Glitni. Jafnframt hafa aðrir kostnaðarliðir verið lauslega skoðaðir, t.d. auglýsingar af sömu ástæðu. Þá hefur skilanefnd aflað upplýsinga frá fyrrverandi stjórnendum og starfsmönnum Glitnis um þá stefnu sem framfylgt var í þessum efnum á fyrrgreindu tímabili."












Fleiri fréttir

Sjá meira


×